143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það gleður mig að hæstv. málshefjandi hefur á því mikinn áhuga að ég skuli taka aftur til máls hér en þannig er tímanum skipt að þingflokkar hafa tvisvar sinnum tvær mínútur og ráða því sjálfir hvernig þeir ráðstafa þeim tíma.

Ég vil halda aðeins áfram að ræða þetta út frá æskilegri þróun hvað varðar upprunamerkingar og rekjanleika vörunnar af því ég tel að við eigum að taka þessar hörmulegu uppákomur sem upplýst hefur verið um nú og sumar voru þekktar fyrir, sem verulega aðvörun um að það eru frávik frá því sem ætti að vera reglan. Reglan ætti að vera sú að menn gengju alltaf eins langt og aðstæður mögulega leyfa, eins og upplýsingar bjóða upp á, eins og framleiðsluferlin bjóða upp á, í því að neytendur fái sem mestar upplýsingar með vörunni sem þeir kaupa.

Hv. þingmaður nefndi að í mörgum tilvikum finnst neytendum æskilegt að vita beinlínis frá hvaða býli varan er sem þeir kaupa. Það verður nú handleggur sennilega að tryggja þá vitneskju í þeim tilvikum sem menn eru að flytja inn matvæli, hvort sem það er írskt smjör eða kjúklingar með viðkomu í Lettlandi og Danmörku og jafnvel víðar, hvaða bóndi stóð upphaflega fyrir þeirri framleiðslu. En við getum gert það hér innan lands. Við höfum kjöraðstæður til þess að vera með óvenjumikið gagnsæi og rekjanleika í innlendri framleiðslu. Það gefur augaleið. Við eigum að nýta okkur það. Það á að vera eitt af því sem styrkir innlenda framleiðslu, hvað sem svo líður breytingum á komandi árum í sambandi við samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu, innflutning, tollvernd eða annað. Það ætti að vera eitt af því sem væri styrkur hinnar íslensku framleiðslu á þessu sviði að við værum fær um að veita meiri upplýsingar, tryggja mönnum meira öryggi í gegnum merkingar og rekjanleika framleiðslunnar.

Í því ljósi séð er þessi uppákoma enn þá dapurlegri, herra forseti, vantar eiginlega ekkert nema vasaklúta til þess að takast á við það.