143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu, öllum sem hafa tekið þátt í henni. Mér hefur fundist hún málefnaleg og góð og ég vonast til þess að þetta sé bara upphafið að því að við ræðum þessi mál á þennan hátt.

Ég þakka sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru skýr. Ég þarf eðli máls samkvæmt ekki að vera sammála hæstv. ráðherra í öllu, það er nú aldrei þannig, en mér fannst ráðherra gefa góðan tón í mörgu.

Mér finnst þetta í grunninn snúast um það hvað við viljum vernda. Ég held að við þurfum aðeins að skilgreina það. Ég vil vekja athygli á því að sá tími er löngu liðinn að menn líti bara á verð þegar kemur að landbúnaðarvörum. Menn verða líka að horfa til gæða. Í því felst styrkleiki íslensks landbúnaðar. Þegar kemur að þessum hefðbundnu búgreinum stöndum við mjög sterkt. Það þarf hins vegar að sannfæra mig um af hverju hvítt kjöt er í sömu stöðu og mjólkurframleiðslan og sauðfjárbúskapurinn og það var ekki gert í þessari umræðu.

Ég vil vekja athygli á því að ég upplifði það nú bara sjálfur að ég keypti mér nautasteik fyrir fjölskylduna um áramótin í einu fylki Bandaríkjanna, Texas. Þar var það sem okkur finnst eðlilegt að kalla „grass fed“ helmingi dýrara en hefðbundið kjöt. Hefðbundið kjöt þar er að mínu áliti ekki mjög — já, við skulum ekkert ræða það.

Við þurfum eðli málsins samkvæmt að líta á þetta. Hæstv. ráðherra var að velta því fyrir sér hvort ég væri að spyrja út í verslunina. Ég var að spyrja út í verslunina. Hún er ekkert undanskilin. Það er eitthvað snúið ef við erum með kerfi sem er þannig að við séum með tiltölulega hátt verð til neytenda en hins vegar fái bændur mun minna en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Við þurfum að skoða það sérstaklega.

Mér finnst hún frábær þróunin sem kallast Beint frá býli. Lítið er oft fallegt í þessu efni, að við vitum nákvæmlega hvaðan varan kemur, hún er heilnæm og góð og gott að við séum að keppa á þeim markaði. Það hefur ekki bara með íslenska neytendur að gera, það hefur líka með (Forseti hringir.) ferðaþjónustu að gera, svo að dæmi sé tekið. Við sækjum í þessa hluti í öðrum löndum. (Forseti hringir.) Þeir aðilar sem hingað koma og heimsækja okkur sækja eðli málsins samkvæmt, virðulegi forseti, í þessi gæði okkar.