143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

innflutningur á landbúnaðarafurðum.

[11:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi ræður einstakra þingmanna vil ég segja að ég tel ekki að umræddur innflutningur á þessu sméri hafi verið til þess að hefta samkeppni, frekar til að tryggja vöruframboð. Staðreyndin er nefnilega sú að innflutningsverð er hærra en heildsöluverð innan lands, sem er enn ein staðfesting á því að matarverð er lágt og lægra hlutfallslega af launum en oft áður, samanber frétt í Morgunblaðinu um greiningu Analytica sem var birt fyrir nokkrum vikum.

Varðandi þá fyrirspurn hvort menn geti leitað eftir vörum eins og kom fram hjá hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, er alveg rétt að Beint frá býli svarar því kalli. Það er held ég sterkt ákall um það og er gott dæmi um hve vel hefur tekist til þar sem menn geta valið sér vöru ef þeir vilja einhverja sérvöru.

Ég vil einnig nota tækifærið og svara kannski að hluta til útúrsnúningum hv. þm. Helga Hjörvars. Hann fullyrti að hér væri allur landbúnaður laus við samkeppni. Það er rangt. Það eru nokkrar tegundir mjólkurafurða sem eru undanþegnar þessu atriði. Það þarf auðvitað ekki ESB-reglur til þess að setja á einhverjar merkingar. Það má minna á garðyrkjuna sem gerir það sjálf. Það má minna á frumvarp framsóknarþingmannanna og eins og ég sagði í inngangsorðum mínum geta aðilar á markaði sammælst um að gera þetta af sjálfsdáðum, en ríkisvaldið er að vinna að þessu.

Að lokum vil ég taka undir með fyrrverandi landbúnaðarráðherra, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, um sóknarfærin sem sannarlega hafa aldrei verið meiri. Sóknarfærin liggja m.a. í þessu og það er lykilatriði að nýta þetta tækifæri til sóknar til aukinnar framleiðni í landbúnaði, aukinnar framleiðslu sem skilar sér m.a. í gjaldeyrissparnaði, auknum tekjum innan lands, aukinni atvinnu og öflugra samfélagi. Og ég ítreka þá skoðun mína að stærsta sóknarfæri og markaðstækifæri innlendrar framleiðslu sé upprunamerking eigin framleiðslu.