143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

lyfjalög.

222. mál
[11:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri breytingu sem þarna er á samhliða innflutningi lyfja. Ég hef ekki kynnt mér gjaldtökuna og þau ákvæði sem þar fara fram, en ég er þeirrar skoðunar að fara þurfi mjög rækilega í gegnum öll lög er varða Lyfjastofnun og þar með gjaldtökuna. Lyfjastofnun hefur um árabil ákveðið starfssvið sitt nokkurn veginn sjálf og fer iðulega fram úr fjáráætlunum, en hún getur tekið gjöld fyrir það. Ég held að það sé eitthvað sem þurfi mjög að athuga.

Mig langar til að spyrja að tvennu. Í fyrsta lagi: Hvernig kemur þessi athugasemd frá Eftirlitsstofnuninni fram? Var einhver sem kvartaði eða fóru þeir allt í einu núna að lesa yfir íslensku lögin? Ég var þeirrar skoðunar þegar ég vann í þessum bransa að tilskipanirnar frá Evrópusambandinu væru mjög þröngt og einkennilega túlkaðar hér á landi. Mig langar því að spyrja hvernig athugasemdin kom fram

Það kemur fram í máli ráðherrans og einnig í greinargerð að hinn rétti háttur sem núna er verið að færa lögin til hafi verið viðhafður af Lyfjastofnun um árabil. Mig langar að spyrja: Hvaða langa árabil er það? Síðan hvenær?