143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

lyfjalög.

222. mál
[11:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að verklagið hafi tíðkast frá árinu 2000. Lögin voru sett um það bil árið 2000, en ég er ekki alveg viss um að þessi háttur hafi verið hafður á. Ég ætla þó ekki að fara nákvæmlega út í það hér án þess að vita allt um háttalagið.

Ef lögunum er breytt á grundvelli dómsmáls finnst mér það benda til þess að líkur séu á því að þetta hafi verið framkvæmt einhvern veginn öðruvísi, en ég ætla ekki að segja til um það.

Ég fagna því að búið er að færa þetta til rétts vegar. Ég vil beina því til ráðuneytisins og ráðherrans að farið verði ítarlega í tilskipanir er varða lyfjalög, vegna þess að við vitum að lyfjaverð hér er mjög hátt og hluti af því kann að stafa af því að girðingarnar sem eru settar upp séu þrengri en þær þurfa að vera.