143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

hafnalög.

234. mál
[12:03]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á hafnalögum, nr. 61/2003, með síðari breytingum.

Frumvarpið byggist á tillögum starfshóps um endurskoðun hafnalaga sem falið var að endurskoða hafnalögin til að styrkja rekstrargrundvöll hafna og gera þeim kleift að aðlagast breyttri notkun.

Markmið frumvarpsins, virðulegur forseti, er fyrst og fremst að bregðast við fjárhagsvanda hafna og styðja betur við endurnýjun hafnarmannvirkja, en einnig eru aðrar breytingar gerðar. Meðal þeirra eru ákvæði um neyðarhafnir sem nokkuð hafa verið í umræðunni að undanförnu og um heimild ríkissjóðs til að eiga og reka mannvirki vegna ferja.

Hafnir landsins búa sumar eins og við þekkjum við bágan rekstrargrundvöll og eiga erfitt með að bæta afkomu sína, þ.e. auka tekjur eða deila kostnaði af rekstri með því að finna samlegð með öðrum rekstri. Reynslan bendir því miður til að hafnarsjóðir séu einfaldlega of margir og eftir tilvikum of smáir til að geta staðið undir rekstri og nauðsynlegri fjárfestingu. Erfitt er að sjá fyrir hvenær allir hafnarsjóðir verða færir um að standa undir nauðsynlegri fjárfestingu, en þangað til þarf að skapa þeim forsendur til að takast á við eðlilegan rekstur og nauðsynlegar fjárfestingar. Með aukinni sérhæfingu, raunhæfara mati á arðsemi nýframkvæmda og forgangsröðun verkefna innan stærri heildar standa efni til þess að fleiri hafnir geti ráðið við verkefni sín án stuðnings ríkissjóðs eða a.m.k. með minni stuðningi en nú.

Virðulegur forseti. Þær breytingar sem snúa að fjárhagsvanda hafna eru helst eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til í frumvarpinu að eigendur hafna geti gert með sér samning um samrekstur einstakra þátta í starfsemi hafna í stað þess að samstarfið taki til starfseminnar í heild í formi hafnasamlags. Heimild stofnunar hafnasamlags er þó enn fyrir hendi.

Í öðru lagi er lagt til að hafnir geti innheimt önnur þjónustugjöld en núgildandi lög gera ráð fyrir. Markmið þess er að auðvelda höfnum að takast betur á við breyttar aðstæður í rekstri. Slík gjöld verða þó eftir sem áður að uppfylla kröfur hafnalaga um að gjaldtakan miði við að hún standi undir kostnaði við þá þjónustu sem veitt er ásamt sameiginlegum kostnaði eftir því sem við á.

Í þriðja lagi er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um þá hagsmuni og þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar með tillögugerð og forgangsröðun framkvæmda í samgönguáætlun.

Loks er í fjórða lagi lagt til að ákvæðum hafnalaga um ríkisstyrki verði breytt. Þær breytingar fela helst í sér skýrari skilgreiningar á formi ríkisstyrkja. Þó er rétt að taka fram að ekki er um að ræða auknar fjárhæðir úr vasa ríkisins umfram sem þegar er ákveðið í fjárlögum.

Þau verkefni sem lagt er til að ríkissjóður geti samkvæmt frumvarpinu, virðulegur forseti, styrkt eru flokkuð í fimm þætti:

a. Endurbygging og endurbætur á skjólgörðum og dýpkun þar sem reglulegrar viðhaldsdýpkunar er þörf. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs fyrir þessi verkefni verður allt að 75% samkvæmt umræddu frumvarpi.

b. Endurbygging og endurbætur á bryggjum og niðurrif hafnarmannvirkja sem þarf að fjarlægja vegna slysahættu sem af þeim stafar. Í frumvarpinu er lagt til að greiðsluþátttaka ríkissjóðs í þessum verkefnum verði allt að 60%.

c. Skýrari skilyrði fyrir styrkjum vegna nýframkvæmdar við bryggjugerð, skjólgarð og dýpkun í innsiglingu og innan hafnar. Stofnkostnaður við hafnsögubáta á stöðum þar sem aðstæður í höfn og nágrenni hennar kalla á slíkt öryggistæki og innsiglingamerki, svo og löndunarkrana og hafnarvogir. Gera skal grein fyrir nauðsyn og arðsemi þessara framkvæmda og liggja þarf fyrir staðfesting að höfn hafi skilað jákvæðum rekstrarafgangi að teknu tilliti til vaxta. Með frumvarpinu er lagt til að greiðsluþátttaka ríkissjóðs verði hér allt að 50%. Heimild þessi tekur þó ekki til framkvæmda í þágu einstakra fyrirtækja þar sem gerður er sérstakur afnotasamningur til lengri tíma.

d. Aðgerðir eiganda hafnar sem miða að því að hætta eða draga úr hefðbundnum hafnarrekstri. Lagt er til að greiðsluþátttaka ríkissjóðs geti samkvæmt sérstöku samkomulagi numið allt að 60% af neikvæðu eigin fé hafnar.

e. Aðgerðir hafnarsjóða vegna fyrirhugaðrar sameiningar. Greiðsluþátttaka ríkissjóðs samkvæmt þessum þætti skal ákveðin með sérstöku samkomulagi milli viðkomandi hafnarsjóða annars vegar og ríkisins hins vegar.

Þá er lagt til að heimilt verði að veita viðbótarframlög úr ríkissjóði til lítilla hafnarsjóða innan skilgreinds byggingasvæðis samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA með tekjur undir 40 millj. kr. og þar sem verðmæti meðalafla síðustu ára er undir 1 milljarði kr. Viðbótarframlagið sem hér um ræðir getur orðið allt að 15%.

Skilyrði, virðulegur forseti, fyrir úthlutun ríkisstyrkja verða þau að um sé að ræða framkvæmd sem hefur mikla þýðingu fyrir almannahagsmuni á viðkomandi stað. Viðkomandi höfn þarf að vera og verður að hafa skilað jákvæðum rekstrarafgangi að teknu tilliti til vaxta eða hafa nýtt kosti sína til tekjuöflunar með eðlilegum hætti og framlag ríkissjóðs má ekki raska samkeppni milli hafna.

Hæstv. forseti. Ég hef hér gert grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og legg að lokum til að því verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og síðar til 2. umr.