143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[12:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég á ekki von á öðru en að góð og almenn sátt náist um aukningu í lögregluliðum landsins um tæplega 50. Ég held að góð sátt verði um það.

Það er hárrétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að það er ekki stefna þess innanríkisráðherra sem hér stendur að breyta þeirri forgangsröðun sem kom fram hjá síðustu ríkisstjórn um að efla þá þætti sérstaklega er lúta að kynferðisofbeldi og rannsókn þeirra mála hjá lögreglu. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt og gott skref.

Ég er þakklát fyrir það að okkur tókst að halda miklu af þeirri aukningu inni í fjárlögum þessa árs, sem skiptir máli, því að það starf var komið vel á veg og í ákveðinn farveg sem er mikilvægt að viðhalda. Ég held að samstillt átak allra sem hér sitja tryggi það og okkur takist að ná vel utan um löggæslumál í landinu og sannarlega sagt við almenning að við séum að gera það eins vel og mögulegt er.

Ég veit einnig að fyrrverandi velferðarráðherra þekkir það að núverandi félags- og húsnæðismálaráðherra hefur beitt sér mjög öfluglega fyrir því að áfram verði haldið á sömu braut innan ráðuneytis hennar, þ.e. varðandi þjónustu við börn hvað þetta varðar og uppbyggingu í Barnahúsi. Ég held því að sú samstaða sem verið hefur í þessum sal um þau mál muni ekki breytast.