143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[12:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram en kannski fyrst og fremst fyrir þann tón sem hæstv. ráðherra sló í framsögu sinni með málinu áðan. Hann er allt annar en sá sem hefur heyrst frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum og mánuðum. Ég heiti á hæstv. ráðherra að halda þessum tóni áfram, halda áfram að tala um mannúð, umbætur, réttláta meðferð, jákvæðni gagnvart því fólki sem hingað kemur, að líta á innflytjendur sem tækifæri en ekki ógn. Allt eru þetta hlutir sem mér finnst vera þóknanlegir og líka að forgangsraða og standa við okkar skuldbindingar hvað varðar kvótaflóttamenn og ekki síst að horfa til ákveðinna hópa eins og barna og mæðra.

Það sem mig langar aðeins að spyrja um og hefði auðveldað umfjöllun um málið, þótt það sé í sjálfu sér að einhverju leyti aukaatriði og hægt að svara því í nefndinni þar sem ég fæ tækifæri til þess að fjalla um málið, er við hverja hefur verið haft samráð. Í einum kafla greinargerðarinnar er minnst á samráð en svolítið kæruleysislega farið með, það má skilja það þannig að þarna hafi eingöngu komið að sjálft ráðuneytið og síðan Útlendingastofnun, lögreglan og einhverjir aðrir. Ég geri ráð fyrir að samráðið hafi verið miklu víðtækara. Ég held að það sé mikilvægt að það komi fram hverjir hafa þegar fjallað um málið. Þetta er gríðarlega viðkvæmur málaflokkur og skiptir mjög miklu máli að við vöndum okkur, förum vel yfir þetta og reynum að tryggja skilvirknina og hraðann í kerfinu en um leið mannúð og það réttlæti sem við viljum öll sjá þegar fjallað er um þessi mál.