143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[13:00]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni hvatninguna til að gera vel í þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar og hef lengi verið og hef margítrekað sagt það bæði hér á þessum vettvangi og þegar ég var í borgarstjórn Reykjavíkur, að Reykjavíkurborg nálgast að mínu mati málefni innflytjenda með umburðarlyndum og farsælum hætti.

Það sem ég hef orðið eilítið vör við í störfum mínum sem innanríkisráðherra er að mér finnst eins og þessi mál séu flokkuð eftir ákveðnum hólfum en svo þegar það hentar kjósum við að rugla öllum hólfunum saman.

Málefni hælisleitenda eru eitt og þar þarf klárlega að forgangsraða mjög ákveðið og skýrt enda getum við ekki öðruvísi staðið við alþjóðlegar skuldbindingar. Það verður að gerast. Í því felst auðvitað að ákveðnir aðilar fái ekki slíka vernd en það þýðir ekki að sömu reglur þurfi að gilda eða skuli gilda um beiðnir um að setjast að í landinu, vinna hér og búa hér. Það er tvennt ólíkt. Mér finnst eilítið að í umræðunni sé þessu öllu ruglað saman og ég hvet okkur til að nálgast málin öðruvísi.

Hvað varðar samráðið hefur verið haft ansi víðtækt samráð við mjög marga, bæði í tíð fyrrverandi innanríkisráðherra og á undanförnum mánuðum. Þetta hefur verið rætt á vettvangi Rauða krossins. Þetta hefur verið rætt við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, við ákveðin mannréttindasamtök o.s.frv. Hins vegar er það líka skilið eftir í höndum nefndarinnar að fara betur yfir það. Ég skal hins vegar með mikilli ánægju láta taka saman ítarlegri lista ef listinn er ekki nægilega greinargóður í greinargerð með frumvarpinu og koma honum til þingmanna.