143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[13:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra framsöguna og fagna framlagningu málsins. Ég tek undir þau meginsjónarmið sem hafa komið fram í andsvörum og samtali hæstv. ráðherra við hv. þm. Guðbjart Hannesson varðandi tóninn í umræðunni og þá meginafstöðu sem er að taka þeirri miklu samfélagsbreytingu sem viðvarandi er og fram undan er í enn ríkari mæli með opnu hjarta og með opin augun og fyrst og fremst með mannúðarsjónarmið að leiðarljósi.

Mig langar aðeins að spyrja hæstv. ráðherra vegna þeirrar umræðu sem hefur verið uppi í tengslum við flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og það að hve miklu leyti okkar framkvæmd samræmist þeim samningi. Hér er aðeins um stutt andsvar að ræða og við eigum auðvitað eftir að fara betur yfir þetta mál og þessi mál í nefndinni en mig langar að spyrja um þá framkvæmd að saksækja og dæma þá umsækjendur um alþjóðlega vernd sem koma til landsins með fölsuð skilríki, hver staða þeirra verði. Ég heyrði ekki í framsögu ráðherrans að það væri sérstakt efni til skoðunar en þetta er afar mikilvægur punktur sem flóttamannasamningurinn tekur á, þ.e. hver staða þessar aðila er, því að framkvæmdin hefur verið með mjög afgerandi hætti á Íslandi en er sannarlega ekki hafin yfir vafa að því er varðar þann ramma sem flóttamannasamningurinn setur sér.

Svo vildi ég líka spyrja hæstv. ráðherra um viðmiðunartímamörk varðandi málsmeðferðartímann. Það kom kannski fram í framsögunni en málsmeðferðartíminn hefur auðvitað sætt gagnrýni og ég spyr hvort það sé klárt í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) hver málsmeðferðartíminn megi verða að jafnaði í þessum málum.