143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

útlendingar.

249. mál
[13:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hvað varðar þennan einstaka þátt er það alveg rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns, alveg hárrétt eins og hún lýsir upplegginu sem var í frumvarpi fyrrverandi innanríkisráðherra um ákveðna nálgun í því. Við erum hins vegar með áherslubreytingu okkar, með innleiðingu á 48 tíma reglunni, með hraðari málsmeðferð að vonast til þess, og í því felst sú rýni sem við erum í núna og ég upplýsti hér áðan að lyki vonandi í lok febrúar, við gerum auðvitað ráð fyrir því að þessir 18 mánuðir verði aldrei 18 mánuðir, að við stöndum aldrei frammi fyrir 18 mánuðum.

Reynsla Norðmanna er sú að þrátt fyrir að þeir séu með 48 tíma regluna sé ákveðinn hópur sem tekur alltaf lengri tíma. Það getur verið að á endanum sé það einmitt sá hópur þannig að við þurfum einhverjar sérstakar leiðir hvað það varðar, en við vonumst að sjálfsögðu til þess að standa aldrei frammi fyrir því. Vegna þess vil ég ekki fella dóma um hvort ég sæi það fyrir mér nákvæmlega með þeim hætti sem hv. þingmaður lýsti, enda hef ég áður sagt að ég teldi rétt að fara aðeins betur yfir frumvarpið eins og það lá fyrir og þetta er eitt af því sem er verið að skoða af sérfræðingum og öðrum aðilum í ráðuneytinu og víðar. Við erum vonandi að fara inn í mjög öflugt samráð og samstarf við Rauða krossinn um þessi mál og erum að leita í smiðjur þeirra líka, bæði alþjóðlega og hér á landi, og ég vona innilega að við getum að einhverjum tíma liðnum sagt: Hér þarf enginn að bíða eftir svari í 18 mánuði.