143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[13:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessari umræðu eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Eins og öllum er kunnugt hefur umsóknarferlið verið stöðvað af ríkisstjórninni en eftir stendur spurningin um hvað beri að gera næst.

Það liggur fyrir af hálfu viðsemjandans, Evrópusambandsins, skýr vilji til áframhaldandi samninga sem hefur verið staðfestur af Evrópuþinginu og nú síðast í gær í umræðu í Evrópuþinginu og í ræðu stækkunarstjórans þar sem ítrekaður er vilji Evrópusasmbandsins til að semja við Ísland og sú fullvissa að hægt sé að ganga frá aðildarsamningi sem gæti grundvallarhagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Forusta stjórnarflokkanna gaf skýr fyrirheit fyrir síðustu kosningar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði skýrt að hann teldi eðlilegt að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna færi fram á fyrri hluta kjörtímabilsins. Hæstv. forsætisráðherra sagðist opinn fyrir atkvæðagreiðslu á fyrri hluta kjörtímabilsins en það kæmi líka til greina að hafa hana síðar á kjörtímabilinu og sagði ítrekað fyrir kosningar að hann væri opinn varðandi dagsetningar. Það var því skýrt fyrirheit núverandi stjórnarflokka að hægt væri að kjósa þessa flokka til valda en þjóðin gæti samt í þjóðaratkvæðagreiðslu ákveðið að halda áfram með aðildarumsóknarferlið. Við sjáum síðan núna og höfum á undanförnum vikum orðið vitni að krampakenndum tilraunum forustu ríkisstjórnarinnar til að komast hjá því að efna þau fyrirheit sem gefin hafa verið. Þær tilraunir taka á sig ótrúlegustu myndir en þó held ég að steininn hafi tekið úr í morgun í Morgunblaðinu þar sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, sérvalinn aðstoðarmaður hæstv. forsætisráðherra, útskýrir að jafnvel þó að þjóðin kjósi að halda áfram aðildarumsóknarferlinu sé einbeittur vilji núverandi ríkisstjórnar að spilla því ferli með öllum tiltækum ráðum og setja til verka við aðildarumsóknarferlið menn sem láta einskis ófreistað að skaða ferlið, skemma og spilla fyrir því. Það er sjaldgæft að fá slíka innsýn í hugarfar forustumanna í ríkisstjórn og sjá þá fyrirlitningu á þjóðaratkvæðagreiðslum og þjóðarvilja sem birtist í þessum orðum.

Við höfum gengið í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi og ríkisstjórn sem ætlar sér að sitja eftir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu verður auðvitað að virða vilja þjóðarinnar og finna hjá sér stolt til að framfylgja honum fram yfir eigin tiktúrur eða forgangsröðun.

Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé einboðið að nýta það lag sem nú er þegar fyrir liggur að gengið verður til almennra kosninga í vor í sveitarstjórnarkosningum og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna samhliða sveitarstjórnarkosningum 31. maí í vor.

Í fyrsta lagi liggur fyrir að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill fá aðkomu að þessari ákvörðun. Yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar vill að þjóðin fái að segja álit sitt á þessu máli. Mikill meiri hluti vill ljúka aðildarsamningi vegna þess að meiri hluti Íslendinga er, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur útskýrt svo ágætlega, viðræðusinnar, menn eins og ég sem vilja fá að sjá aðildarsamning áður en þeir kveða upp úr um það hvort þeir treysta sér til að styðja aðild eða ekki. Það er málefnaleg afstaða, afstaða sem á rík fordæmi vítt og breitt um Evrópu og það er afstaða sem nýtur fulls skilnings hjá viðsemjanda okkar að menn vilji fá að sjá samning áður en þeir kveða upp úr um það hvort þeir séu tilbúnir að gerast aðilar að Evrópusambandinu eða ekki.

Það liggur líka fyrir skýr samningsvilji Evrópusambandsins, ítrekaður síðast í gær. Á næstu mánuðum munu liggja fyrir tvær vandaðar háskólaúttektir, önnur sú sem ríkisstjórnin hefur óskað eftir frá Hagfræðistofnun háskólans og hin úttekt sem aðilar vinnumarkaðarins hafa óskað eftir frá Alþjóðamálastofnun háskólans. Þessar tvær úttektir verða glænýjar fyrir kjördag í sveitarstjórnarkosningum í vor og því erfitt að finna betri og heppilegri tímasetningu fyrir þjóðina að mynda sér skoðun með málefnalegum hætti á þessu álitamáli en akkúrat kjördag við almennar sveitarstjórnarkosningar í vor. Er þá ekki ljóst að best sé að taka næsta skref með þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) um framhald aðildarviðræðna samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor?