143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[13:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að útskýra enn einu sinni á hvaða stefnugrundvelli ríkisstjórnarflokkarnir byggja í þessum efnum. Ég held að menn verði að átta sig á því hvað liggur til grundvallar þeirri stefnumörkun og því starfi sem ríkisstjórnarflokkarnir vinna að og best er að gera það með því að líta í þá texta sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um og liggja fyrir.

Hæstv. forsætisráðherra vísaði áðan í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar er skýrt tekið fram að þetta verði í þremur skrefum; hlé á viðræðum, úttekt gerð á stöðu viðræðna, málið lagt fyrir Alþingi og við erum að nálgast það skref. Í raun og veru er annað í þeirri umræðu ótímabært vegna þess að það liggur fyrir að hin eiginlega umræða mun fara fram á grundvelli þeirrar skýrslu sem væntanleg er innan skamms, eins og hæstv. forsætisráðherra lýsti.

Það er líka skýrt að það er vilji stjórnarflokkanna að ekki verði haldið áfram viðræðum nema slíkt verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því felst auðvitað ekki ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvenær hún verður haldin, enda byggir texti stjórnarsáttmálans á skýrum ákvæðum í landsfundarályktunum beggja flokkanna sem hér um ræðir. Báðir flokkarnir taka fram að þeir telji hagsmunum Íslands betur borgið með því að standa utan Evrópusambandsins. Það kemur skýrt fram í landsfundarályktunum beggja flokkanna. Og báðir flokkarnir nota, hvor með sínu orðalagi, líka þann skýra fyrirvara að ekki verði haldið áfram í þessum viðræðum nema komi til þjóðaratkvæðagreiðsla en ekki er neitt tekið fram um hvort eða hvenær slík þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Sjálfstæðismenn segja í sinni landsfundarályktun: Áréttað er að aðildarviðræðum við ESB verði hætt og þær ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Framsóknarmenn segja: Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. En umræðan mun auðvitað fara fram innan skamms á þinginu á grundvelli þeirrar skýrslu sem boðuð hefur verið.