143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

staða aðildarviðræðna við ESB.

[14:01]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er svolítið dæmigerð umræða í þingsölum um mikilsvert mál þar sem menn leggja mest upp úr því að snúa út úr aðalatriðum. Forsætisráðherra gerir lítið úr því að það hafi verið stefna Alþýðuflokksins á sínum tíma og síðan stefna Samfylkingarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Forsætisráðherrann á að vita, vegna þess að honum hefur verið sagt það svo oft, og hann á að hafa kynnt sér starfsemi Evrópusambandsins nógu vel undanfarin ár meðan hann var í utanríkismálanefnd, og síðan ég hitti hann fyrst í þessu starfi, að vita að samningar að Evrópusambandinu eru forsenda þess að ganga þar inn. Þjóðir taka ákvörðun eftir að þær hafa lokið samningi.

Ef maður vill ekki ganga til samninga gengur maður ekki til samninga, en ef maður vill ganga til samninga gengur maður til samninga. Síðan undirritar maður samninginn, samþykkir samninginn þegar hann liggur fyrir en ekki um eitthvað ímyndað um að verið sé að draga þjóðir út í einhverjar ófærur. Samvinnan í Evrópusambandinu gengur út á það að tryggja sameiginlega hagsmuni þjóða.

Eitt er þó ljóst í þessu öllu saman sem hæstv. forsætisráðherra endaði mál sitt á, að þessi ríkisstjórn vill ekki ganga í Evrópusambandið. Henni er alveg sama þótt hún svíki alla kjósendur um allt sem hún hefur sagt og snúi út úr endalaust.

Síðan er sagt: Lesið það sem stendur í stjórnmálaályktunum. Annar flokkurinn segir: Við ætlum að hætta. Hinn segir: Við ætlum ekki að fara lengra. (Forseti hringir.)

Hvort ætlið þið að gera, hætta eða fara ekki lengra? Og af hverju spyrjið þið ekki þjóðina? (Gripið fram í: … sem sagt ekki sammála.)