143. löggjafarþing — 51. fundur,  16. jan. 2014.

vátryggingastarfsemi og miðlun vátrygginga.

168. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um miðlun vátrygginga (markaðssetning, stjórnarhættir og eftirlit).

Frumvarpið var lagt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og nefndin ræddi þetta á nokkrum fundum og fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins og Fjármálaeftirlitinu.

Að auki bárust umsagnir um frumvarpið frá Alþýðusambandi Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráði Íslands.

Frumvarp þetta var upphaflega lagt fram á 141. löggjafarþingi (489. mál) en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram að nýju. Tilefni framlagningar frumvarpsins er tvíþætt, annars vegar er um að ræða ábendingar frá Fjármálaeftirlitinu um ákveðna vankanta á lögum um vátryggingastarfsemi sem fram hafa komið við eftirlit. Hins vegar er svo komið að Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið formlega málsmeðferð gegn íslenska ríkinu þar sem litið er þannig á að upp á vanti við innleiðingu tveggja tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins, annars vegar um endurskipulagningu og slit vátryggingafélaga 2001/17/EB sem formlega var innleidd í íslenskan rétt með lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, og hins vegar tilskipun 2002/92/EB, um miðlun vátrygginga. Frumvarp það sem nefndin hefur hér til umfjöllunar bregst við fyrrnefndum ábendingum Fjármálaeftirlitsins og athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA.

Meginefni frumvarpsins snýr að breytingum á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 56/2010, og lögum um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005. Frumvarpið gerir ráð fyrir ýmsum breytingum á lögum um vátryggingastarfsemi, meðal annars rýmkun heimilda til endurtryggingar frumáhættu auk þess sem kröfur um gagnsæi stjórnarhátta verða auknar, m.a. með birtingu tiltekinna upplýsinga. Settar verða takmarkanir á markaðssetningu af hálfu vátryggingafélaga sem ekki hafa leyfi til að stunda vátryggingastarfsemi hér á landi. Nýtt ákvæði um útvistun verkefna verður sett í lagatexta auk þess sem settar eru inn reglur um hvernig brugðist skuli við forsendubreytingum varðandi þá sem fara með virkan eignarhlut. Sett eru ítarlegri ákvæði um stjórnarsetu og setu í stjórnum annarra félaga. Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir breytingum á lögum um miðlun vátrygginga, en þar er lagt til að kröfur til lögaðila sem sækja um starfsleyfi til vátryggingamiðlunar verði samræmdar þeim kröfum sem gilda um einstaklinga sem sækja um leyfi sem vátryggingamiðlarar.

Lagt er til að Fjármálaeftirlitið verði tilkynningarskylt til heimaeftirlits vátryggingamiðlara, sem er undir eftirliti annars aðildarríkis, um brot hans á lögum og loks er gert ráð fyrir að vátryggingamiðlurum verði skylt að setja upp skipulegt innra ferli til að svara og bregðast við kvörtunum viðskiptamanns.

Í umsögnum og á fundum nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið sem nefndin ræddi.

Í nefndarálitinu er fjallað ítarlega um flestar greinar og ég sé ekki ástæðu til að lesa þær upp en þær liggja fyrir í nefndarálitinu.

Nefndin leggur fram breytingartillögu við frumvarpið sem liggur hér frammi á þingskjali 408. Að öðru leyti leggur nefndin samhljóða til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita þann 16. desember 2013 Frosti Sigurjónsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Pétur H. Blöndal og Steingrímur J. Sigfússon, allt hv. þingmenn.

Breytingartillaga liggur frammi í málinu en ég vil, þar sem fram hefur komið athugasemd á milli umræðna, óska eftir því að nefndinni verði gefinn kostur á því að fjalla um athugasemdina og að málinu verði vísað að nýju til efnahags- og viðskiptanefndar á milli umræðna.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.