143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

frískuldamark vegna skatts á fjármálafyrirtæki.

[15:06]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra í dag varðandi frískuldamark vegna MP-banka sem mikið hefur verið í umræðunni upp á síðkastið.

Eins og komið hefur fram var það frískuldamark sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til með þeim hætti að það hentaði sérstaklega vel einni tiltekinni fjármálastofnun, MP-banka. Við höfum fengið þrjár ólíkar útgáfur frá formanni nefndarinnar á því hver tildrög þessa skuldamarks voru, hvaðan hugmyndin kom og hverjir það voru sem lögðu það fram. Nú virðist ljóst að embættismenn fjármálaráðuneytisins segja fyrirmæli hafa komið frá stjórnarmeirihlutanum þó að það sé enn nokkuð á huldu hverjir nákvæmlega gáfu þau fyrirmæli að reikna áhrif 50 milljarða frískuldaþaks.

Ég vil því beina fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra því að það skiptir auðvitað miklu máli að það liggi ljóst fyrir hver aðkoma forustumanna ríkisstjórnarinnar var að þessu máli vegna þeirra ríku tengsla sem eru milli forsætisráðherra, forsætisráðuneytisins, og MP-banka, með hvaða hætti aðkomu hans að málinu var háttað. Maður gengur auðvitað út frá því, þar sem hér er um að ræða ákvörðun sem hefur áhrif upp á hundruð milljóna í tekjuöflun fyrir ríkissjóð, að eitthvert samtal hafi átt sér stað á milli meiri hluta nefndarinnar og forustumanna ríkisstjórnarinnar. Hver var aðkoma hæstv. forsætisráðherra að þessari ákvörðun og hvernig beitti hann sér gagnvart meiri hlutanum við ákvörðun þessara frískuldaþaks?