143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

frískuldamark vegna skatts á fjármálafyrirtæki.

[15:10]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að elta ólar við þann fúkyrðaflaum sem hæstv. forsætisráðherra taldi sér sæma að demba hér yfir þingheim. Það er ekki verið að dylgja um tengsl þegar þau eru raunverulega fyrir hendi, og þegar þau eru raunverulega fyrir hendi ber stjórnvöldum skylda til þess að skýra aðkomu sína að málum til að við getum treyst því að það sé hafið yfir vafa að ákvarðanir séu teknar á efnislegum forsendum.

Hinar efnislegu forsendur fyrir þessari ákvörðun vantar. Hæstv. forsætisráðherra getur svo hér í ræðustól skotið skildi fyrir MP-banka eins og hann kýs en hitt er ljóst að skattgreiðslur þess banka lækkuðu um 78% vegna frískuldamarksins. Það er því fullkomlega eðlilegt, málefnalegt og rökrétt að spyrja um aðkomu hæstv. forsætisráðherra að þessu máli, sérstaklega í ljósi þess að fjölþætt tengsl eru milli hans og bankans.