143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þetta var sérkennileg fyrirspurn. Hv. þingmaður heldur því fram að hinir ýmsu erlendu fjölmiðlar hafi verið að flytja fréttir af því að ríkisstjórn Íslands væri ekki að gera neitt sérstaklega mikið. Ég kannast ekki við þessar fréttir þannig að ég get nú ekki farið að tjá mig mikið um þær eða innihald þeirra.

Hvað hins vegar varðar fyrirspurn hv. þingmanns um hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að bæta efnahagslega stöðu landsins þá hyggst ríkisstjórnin áfram vinna að því að bæta stöðuna á þann hátt sem hún hefur gert með því að taka á þeim vanda sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir, umfram allt að skila hallalausum fjárlögum í fyrsta skipti frá því að bankahrunið reið yfir á sama tíma og bætt er í grunnstoðir samfélagsins, félagsmálin og heilbrigðismálin. Hallalaus fjárlög eru forsenda alls hins.

Í framhaldinu hyggst ríkisstjórnin jafnframt halda áfram að hvetja til aukinnar fjárfestingar í stað þess að leggja hindranir í veg þeirra sem vilja fjárfesta og byggja upp eins og gert var á síðasta kjörtímabili. Við sjáum nú þegar árangurinn af þessu í skyndilega auknum hagvexti undir lok síðasta árs þar sem menn eru loks að taka við sér, farnir að fjárfesta og þá væntanlega farnir að ráða fleira fólk til starfa þannig að viðsnúningurinn er hafinn.

Stutta svarið við spurningu hv. þingmanns er að ríkisstjórnin mun halda áfram á sömu braut.