143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

framlög til menningarsamninga.

[15:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og öllum er kunnugt um eru menningarsamningar í gildi milli ríkis og sveitarfélaga og annarra þar sem farið hefur verið inn á þá ágætu braut að færa þetta meira heim í hérað. Þessir menningarsamningar hafa verið mjög mikilvægir og hafa skilað sér vel.

Að því er mér virðist er hins vegar eitthvað að gerast núna sem ruglar þetta dæmi mjög. Við þingmenn Norðausturkjördæmis höfum til dæmis fengið okkar öflugu samtök sveitarfélaga, þ.e. Eyþing og Samtök sveitarfélaga á Austurlandi, til fundar við okkur eftir þeirra beiðni þar sem þeir hafa lýst miklum áhyggjum yfir svokölluðu reiknilíkani sem er verið að búa til í menntamálaráðuneytinu. Það ruglar mjög þetta dæmi eins og það hefur verið undanfarin ár en það get ég ekki rætt hér vegna þess að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra er ekki viðstaddur. En ég hef óskað eftir því í þingmannahópnum að menntamálaráðherra komi þar til fundar til að útskýra það sem að honum snýr gagnvart þessum menningarsamningum.

En það er annað atriði sem þessir fulltrúar nefndu sem er framlag sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eða atvinnuvegaráðuneytisins, til þessara menningarsamninga sem virðast vera í fullkominni óvissu um þessar mundir. Þannig hafa þessir aðilar sýnt okkur þá útreikninga að ef reiknilíkan eins og það sem menntamálaráðherra er að gera, plús það að atvinnuvegaráðuneytið leggi ekki fram þá peninga sem þeir hafa lagt fram frá upphafi og hafa verið mjög mikilvægir inn í þessa samninga, þá sé mjög mikill niðurskurður á þessum menningarsamningum sem muni jafnvel setja þá í fullkomna óvissu. Það hefur verið talað um að ef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið hverfur frá samningnum sé niðurskurðurinn allt að 40%. Því er spurning mín til hæstv ráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að þeir peningar sem hafa komið frá þessum ráðuneytum inn í menningarsamninginn komi á þessu ári?