143. löggjafarþing — 52. fundur,  20. jan. 2014.

ferðaþjónusta fatlaðra.

[15:31]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Hún er í þó nokkuð mörgum liðum og ég held að það væri mjög gott ef hv. þingmaður væri til í að leggja þetta fram sem skriflega fyrirspurn þannig að ég gæti svarað þessu mun nákvæmar en ég get hér á þeim stutta tíma sem við höfum til að svara óundirbúnum fyrirspurnum.

Við höfum verið að huga að því sem snýr að fötluðu fólki og ekki bara ferðaþjónustunni sem hv. þingmaður nefnir hér heldur öllum þeim stuðningi sem hið opinbera veitir fötluðu fólki til þess að fólk geti komist á milli eins og það þarf á að halda í samræmi við sína fötlun. Ég og hæstv. heilbrigðisráðherra höfum þegar hugað að því að skipa sérstakan starfshóp hvað það varðar auk þess sem það liggur fyrir að við þurfum að fara yfir reynsluna af yfirfærslu á málaflokknum til sveitarfélaganna.

Þó að menn séu sammála um það í heild sinni að yfirfærslan hafi gengið vel, jafnvel betur en menn þorðu að vona, þá hafa náttúrlega komið upp ýmis mál, ýmsir hnökrar, sem er ástæðan fyrir því að fara þarf yfir reynsluna og síðan meta hana. Það snýr enn á ný að tekjuskiptingunni á milli sveitarfélaganna, en ákveðið var að búa til ákveðin þjónustusvæði. Þetta snýst líka um það hvort nægilegt fjármagn komi frá ríkinu til sveitarfélaganna til að tryggja þessa þjónustu, og það er náttúrlega bara vinna sem er fram undan.