143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar í framhaldi af fyrirspurn minni í gær til forsætisráðherra, þar sem hún snerist um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem er sögð valda því að fjárfestar forðist Ísland á sama tíma og fjármagn streymi til annarra Evrópuríkja sem urðu illa úti í kreppunni og honum þótti sérkennileg, að ræða aðeins þessi viðbrögð því að skilja mátti af svörum ráðherrans að hér væri einna helst um eitthvert bull að ræða og fyrri ríkisstjórn um að kenna og því engin ástæða til að gefa þessu gaum.

Ég sagði máli mínu til stuðnings að efasemdir hefðu birst reglulega en ráðherrann reyndi að gera lítið úr málflutningi mínum í lok síns máls með því að halda því fram að ég gæti aðeins vitnað í eina grein en í fjölmiðlunum í dag er m.a. í International Finance Review og aftur á vef Reuters, sem ég vitnaði til í gær, fullyrt að Ísland sé úti í kuldanum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum á sama tíma og fjármagn streymi til annarra ríkja eins og Grikklands, Portúgals og Írlands. Fullyrt er að þessa þróun megi rekja til stjórnarskiptanna hér á landi. Bent er á að síðan ný ríkisstjórn tók hér við völdum hafi vextir á fimm ára skuldabréfi ríkisins farið úr 4,1% í 6,4% fyrr í þessum mánuði. Til samanburðar eru vextir á sambærileg írsk bréf með 1,8% vöxtum og portúgölsk með 3,8% vöxtum. Það er ástæða til að gefa þessu gaum.

Þetta er mikil breyting á viðhorfi til Íslands frá því sem var undir lok síðasta kjörtímabils og er ekki ásættanleg fyrir okkur sem búum í þessu landi. Árangurinn sem náðist á síðasta kjörtímabili er ekki aðeins í hættu heldur lítur út fyrir að hann sé því miður þegar farinn fyrir lítið.