143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ársalgengi lyndis- og kvíðaraskana á Íslandi er áætlað um 10%. Eina einstaklingsmiðaða meðferðarúrræðið sem stendur til boða í heilsugæslunni er lyfjameðferð þrátt fyrir að árangur hennar sé misjafn og þrátt fyrir þá staðreynd að hugræn atferlismeðferð sé tilgreind sem forgangsmeðferð við lyndis- og kvíðaröskunum. Kvíði og kvíðaeinkenni geta hæglega leitt til þunglyndis sé ekkert að gert. Fyrsta meðferð á ávallt að vera hugræn atferlismeðferð en er hér á landi ávallt lyfjagjöf. Þrátt fyrir þetta hafa menn aðgang að þeim upplýsingum að hugræn atferlismeðferð hefur skilað góðum árangri, betri árangri en lyfjagjöf erlendis. Þessi staðreynd skýrir mjög margt sem aflaga fer hjá okkur, aukinn fjölda öryrkja, brottfall úr skóla og að börn leiðast út á glapstigu.

Nú er það svo að báðir stjórnarflokkar hafa það á stefnuskrá sinni að efla hugræna atferlismeðferð. Samt sem áður er hún ekki niðurgreidd af sjúkratryggingum á sama hátt og lyf. Eitt versta dæmið sem ég hef heyrt um er um 7 ára barn sem hefur kvíðaeinkenni og fer strax á lyf, 7 ára gamalt barn. Það hlýtur að vera þannig, herra forseti, að þrátt fyrir að hugræn atferlismeðferð sé til skamms tíma dýrari meðferð, dýrari kostur, en lyfjagjöf, þá hlýtur það að vera athugunarefni fyrir okkur öll að beina þessum málum í það horf að hugræn atferlismeðferð fái sömu meðferð hjá sjúkratryggingum og lyfjagjöf.