143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mér eru jafnréttismál mjög hugleikin. Því miður er staðan þannig árið 2014 að þjóðin er enn að glíma við launamun kynjanna. Það hallar á annað kynið í stjórnunarstöðum og réttindi karla og kvenna eru ekki þau sömu þó að reynt sé með lagasetningu að jafna hana. En lagasetningunni er á mörgum jafnréttissviðum ábótavant.

Mig langar að fara aðeins betur ofan í rétt til forræðis yfir börnum. Börn eru ekki eingetin, foreldrar eignast börn saman, börn fæðast og ef foreldrar þeirra eru ekki í hjúskap eða sambúð fær móðirin sjálfkrafa fullt forræði yfir þeim. Hvaða réttlæti og jafnrétti er í þess konar lagasetningu? Og hver tekur sér það vald að segja að móðirin sé alltaf hæfara foreldrið?

Í 29. gr. barnalaga, nr. 76/2003, segir, með leyfi forseta:

„Nú eru foreldrar barns hvorki í hjúskap né skráðri sambúð við fæðingu barns og fer móðir þá ein með forsjá þess, sbr. þó 1. mgr. 32. gr.“ þar sem segir meðal annars:

„Foreldrar geta samið um að forsjá barns verði sameiginleg.“

Eðlilegra og réttara væri að snúa þessu við og reglan væri að forsjá barns væri sameiginleg óháð hjúskaparstöðu en svo væri hægt að semja um annað. Slíkt er í anda þeirra lagabreytinga sem gerðar hafa verið á undanförnum missirum í tengslum við þá meginreglu að við skilnað eða sambúðarslit foreldra sé forræðið sameiginlegt.

Hæstv. forseti. Ég tel að þetta sé hrópandi tímaskekkja sem við siðmenntuð þjóð og fulltrúar þjóðarinnar þurfum að betrumbæta með hagsmuni barna að leiðarljósi. Þegar barn kemur í heiminn ættu að sjálfsögðu báðir foreldrar að hafa jafnan rétt og jafnt forræði yfir barninu. Það hlýtur að vera markmiðið að barnið hafi jafnan rétt að báðum foreldrum sínum, jafnan rétt til að fá uppeldi frá mömmu og pabba. Í mínum huga á forgangurinn að vera réttur barnsins.