143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Sigrúnu Magnúsdóttur að það er full ástæða til að gleðjast yfir frábærum árangri hinnar ungu hlaupakonu og íþróttakonu Anítu Hinriksdóttur, en hún setti ekki bara Íslandsmet, hún setti Evrópumet fyrir 19 ára og yngri og það er meira en Íslandsmet af því að það eru fleiri í Evrópu en á Íslandi. En ég ætlaði nú ekki tala um það.

Virðulegur forseti. Þann 5. nóvember lagði hæstv. ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis fram skýrslu starfshóps um sæstreng með rafmagn til Evrópu. Þverpólitísk og þverfagleg nefnd hafði unnið að því lengi, það var fengin sérstök hagfræðiráðgjöf, sérstök ráðgjöf í umhverfismálum og sérstök ráðgjöf varðandi lögfræðileg málefni sem allt fylgdi í þessari skýrslu. Starfshópurinn skilaði í skýrslunni sjö, ef ég má sletta, virðulegi forseti, nokkuð „konkret“ tillögum um hvað ætti að gera næst í þessum málum.

Ráðherrann kaus að fara ekki að þeim tillögum heldur að vísa þessu til þingsins, allri skýrslunni. Og svo ég fari nú að dæmi margra annarra, sem mér finnst nú samt að maður eigi að gera eins lítið af og maður getur, að vitna í sjálfa mig, þá velti ég því fyrir mér daginn eftir undir liðnum um störf þingsins hvort það gæti verið að verið væri að svæfa málið í þinginu, á sama hátt og stundum er sagt að „svæfa mál í nefnd“. Hv. formaður atvinnuveganefndar sagði það mjög greinilega undir þeim sama lið að það stæði ekki til. Mig langar þess vegna að spyrja hann hvað hafi verið unnið í verkinu, hvert þetta hafi verið sent til umsagnar, hverjir hafi komið fyrir nefndina og hvenær (Forseti hringir.) nefndin geri ráð fyrir að skila af sér.