143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa húsnæðismál verið rædd af ástæðu. Ýmis hugtök hafa verið gengisfelld með því að nota þau mikið í umræðunni en ég held að það megi segja að ástandið eins og það er núna á leigumarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu sé í það minnsta mjög alvarlegt. Ég hef aðeins fylgst með því hvernig þróunin hefur verið hjá því fólki sem er að leita sér að íbúð til að leigja. Það er uppboðsástand, ég veit af því, þar sem fólk á mjög erfitt með að fá íbúðir og leiguverð þeirra íbúða sem eru lausar hækkar nokkurn veginn með hverjum deginum.

Ég held að þetta sé afleiðing þess að við höfum ekki hugsað nógu djúpt um húsnæðismál. Við eigum ekki að nálgast þetta bara með þeim hætti að við séum að taka á því til þess að bjarga einhverjum hlutum fyrir horn heldur þurfum við að skoða gagnrýnið forsendur fasteignaverðs, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ég tel ýmislegt benda til þess að fasteignaverð sé allt of hátt miðað við þær forsendur sem við búum við. Ég velti því fyrir mér hvort þættir eins og skortstefna á lóðum, sömuleiðis hækkun á ýmsu því tengdu og enn fremur sú húsnæðisstefna sem við höfum haft undanfarin ár og áratugi hafi valdið þessu ástandi.

Þetta er afskaplega brýnt mál. Við verðum til að byrja með að skoða hvort fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu sé í raun eðlilegt miðað við þær aðstæður sem við Íslendingar búum við. Ég tel ýmislegt benda til þess, eiginlega mjög margt, að við séum hér með allt of hátt fasteignaverð miðað við aðstæður. Ég vek athygli á því að hér var bæði fasteignabólga og hlutabréfabólga (Forseti hringir.) og hlutabréfin hrundu, í það minnsta um tíma, (Forseti hringir.) en við höfum ekki séð það sama varðandi fasteignir.