143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

Fiskistofa og vinnubrögð stofnunarinnar.

[14:08]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Fámenn þjóð þarf að lifa í sátt og samlyndi. Við verðum að temja okkur virðingu hvert fyrir öðru og að leikreglur samfélagsins séu virtar. Ég hef kynnt mér starfshætti Fiskistofu og kæru stofnunarinnar á hendur fjórum fyrirtækjum og þau eru fleiri. Starfsaðferðir eru með þeim hætti að undrun sætir. Ekki eru fengnar heimildir til húsleitar á heimilum, vinnustöðum, skrifstofum og um borð í fiskiskipum. Heimilisbókhald og persónulegt bókhald eigenda og starfsmanna er tekið og tölvur speglaðar og enginn veit hvað orðið hefur af öllum þeim gögnum sem tekin hafa verið í tilefnis- og árangurslausum rannsóknum. Rannsóknir taka langan tíma, samtals tíu ár í þeim fjórum dæmum sem ég nefni. Oftar en ekki er fleiri en einn úrskurður gefinn út á sama rannsóknartímabili. Eftir langvarandi óþægindi hefur Fiskistofa fallið frá rannsóknum og kærum í þeim málum sem ég ræði hér um í framhaldinu, en eftir situr óverjandi kostnaður, óþægindi og algjört vantraust.

Fiskistofa úrskurðaði Hafnarnes Ver ehf. í 22 millj. kr. sekt á fyrirtækið, m.a. vegna mats á birgðum þess um áramót. Starfsmenn Fiskistofu neituðu að skoða gögn sem sönnuðu sakleysi ákæranda. Héraðsdómur Reykjavíkur felldi úr gildi úrskurð Fiskistofu og Fiskistofa greiddi sektina til baka með vöxtum og dráttarvöxtum og málareksturinn tók tæp þrjú ár.

Fiskistofa úrskurðaði Saltver ehf. í 33 millj. kr. sekt. Tíu starfsmenn Fiskistofu og lögreglumenn ruddust inn á heimili eiganda og dóttur hans, tóku persónuleg gögn, heimilisbókhald og tölvur, auk gagna frá bókara Saltvers. Engin heimild var gefin út til leitarinnar. Ekkert er vitað hvað varð um afrit gagna. Fiskistofa hefur endurgreitt 33 millj. kr. sekt, málið var tvö ár í vinnslu og rataði oft í fjölmiðla þar sem sektargreiðslur voru spunnar upp og talan 200 millj. kr. nefnd í því sambandi. Slíkar upphrópanir valda erfiðleikum í bankaviðskiptum. Úrskurður var felldur niður.

Fiskistofa tilkynnti Fiskkaupum ehf. um sekt að upphæð 135 millj. kr. vegna ætlaðs mismunar aðfanga. Ellefu starfsmenn Fiskistofu komu á skrifstofu fyrirtækisins og tóku öll gögn, merkt prívatbókhald og möppur, ráku starfsfólk frá tölvum sínum og tölvuþjónustuaðila sem var á staðnum, tölvur voru speglaðar og ekkert er vitað hvað varð um afrituð gögn. Engin leitarheimild var gefin út vegna rannsóknarinnar. Úrskurður var felldur niður tæpum tveimur árum síðar.

Fiskistofa tilkynnti Þórsbergi ehf. um áætlaðan mismun afurðaaðfanga. Í upphafi ferlisins var úrskurðurinn um 177 tonn af framhjálöndun. Síðan var það 606 tonn af framhjálöndun, þá 213 tonn af framhjálöndun, 87 tonn af framhjálöndun og loks úrskurðaði Fiskistofa um enga framhjálöndun. Allt sama málið, og alls var upphæð sektar áætluð á bilinu 20–200 millj. kr. Tíu starfsmenn Fiskistofu komu í starfsstöð félagsins og tóku tölvur og soguðu öll gögn út úr þeim án leitarheimildar og gerðu birgðatalningu sem enginn skildi. Ekkert er vitað hvað varð um afrit gagna. Málið var fellt niður þremur árum og 360 dögum síðar.

Virðulegi forseti. Sektarkröfur Fiskistofu í þessum málum hafa numið á bilinu 400–500 millj. kr. þótt ekki hafi öll málin náð svo langt að sektir hafi verið innheimtar. Fiskistofa hefur þurft að endurgreiða innheimtar sektir með áföllnum vöxtum og dráttarvöxtum. Sektir, þó sérstaklega flugufréttir af sektum, hafa sett bankaviðskipti fyrirtækja í uppnám. Ásökun um 606 tonna framhjálöndun Þórsbergs samsvarar því að flytja hefði þurft 30 gáma af afurðum úr landi.

Málin hafa staðið samfellt í tíu ár. Hér má spyrja hvað þessar tilhæfulausu rannsóknir, mannorðsmissir og óþægindi hafa kostað. Fjölmiðlaumfjöllun ásamt fjölskipuðum dómstóli götunnar hefur hreinlega tekið fyrirtæki og einstaklinga af lífi í árangurslausri meðferð Fiskistofu. Ástæður rannsóknarinnar eru í flestum tilfellum vegna ábendinga fólks úti í bæ eða símtala sem berast Fiskistofu. Þær rannsóknir eru síðan kallaðar tilviljunarkenndar úttektir. Heimildarlausar húsrannsóknir Fiskistofu á heimilum og vinnustöðum hafa vakið athygli fyrir fjölmennt lið lögreglu og starfsmanna Fiskistofu þar sem beitt er aðferðum sem líkjast frekar eiturlyfjarannsóknum en alvarlegri brotum. Öll gögn hafa verið ljósrituð og tölvur speglaðar.

Virðulegi forseti. Opinberar stofnanir með almannavald í höndum verða að ganga fram af hógværð og halda í heiðri að enginn sé sekur fyrr en sekt er sönnuð. Eftirlitsstofnanir eiga að vinna með fyrirtækjum, ekki á móti þeim.

Ég spyr því ráðherra: Telur ráðherra ástæðu til að skoða vinnuaðferðir Fiskistofu, lengd rannsókna, sönnunarbyrði og mat upplýsinga sem berast utan úr bæ? Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða rannsóknarheimildir og úrskurðarvald Fiskistofu? Telur ráðherra ástæðu (Forseti hringir.) til að endurskoða reglur og sektarákvæði Fiskistofu með það að leiðarljósi að auka fælingarmátt til lögbrota með því að þyngja refsingar? (Forseti hringir.) Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða starfsemi stofnunarinnar í heild sinni? (Gripið fram í: Hvað með að leggja hana niður?)