143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

Fiskistofa og vinnubrögð stofnunarinnar.

[14:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að taka þetta mál hér upp, málefni Fiskistofu, til sérstakrar umfjöllunar og hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Það er um býsna alvarleg mál að ræða. Auðvitað er erfitt fyrir þann sem hér talar að leggja mat á þau mál. Ef við víkjum að Fiskistofu er það sjálfstæð stofnun sem heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið eins og komið hefur fram. Um starfsemina gilda sérstök lög. Nú hefur það komið fram í máli hv. þingmanna sem hér hafa talað að heimildir og ábyrgð og vald er býsna mikið og víðtækt enda snýr þetta að grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og okkur stærstu útflutningsatvinnugrein.

Ég tek undir orð hæstv. ráðherra, þegar kemur að slíku valdi og eftirliti er mjög mikilvægt að það sé festa og skilvirkni. Það er erfitt að dæma í þessu máli þegar kemur að friðhelgi einkalífs en það er mjög miður að gengið hafi verið á þann rétt og það ber að skoða í málinu. Ég tek undir orð hv. þm. Brynjars Níelssonar um að við þurfum að taka þetta til gagngerrar endurskoðunar á þeim grunni.