143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

Fiskistofa og vinnubrögð stofnunarinnar.

[14:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Vinnubrögð og starfsemi Fiskistofu fléttast að sjálfsögðu saman og eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að starfsstöðvar Fiskistofu séu í öllum landshlutum næst þeim vettvangi sem þeim er ætlað að hafa eftirlit með, þ.e. starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja og öðru veiðieftirliti. Það vekur því furðu sá ásetningur Fiskistofu að veikja og jafnvel leggja af starfsstöð sína á Ísafirði þar sem næg verkefni eru í fiskveiðieftirliti og í lax- og kvíaeldi. Á síðasta ári var tveim starfsmönnum sagt upp hjá Fiskistofu á Ísafirði og starfseminni breytt í eftirlit með fiskeldi. Nú er búið að loka starfsstöðinni þar og sagt að allt regluverkið í fiskeldismálum sé í endurskoðun og flutningur málaflokksins til Matvælastofnunar á Selfossi skoðaður.

Það er full ástæða til að vekja athygli á slíkum vinnubrögðum í þessari umræðu því að starfsemi Fiskistofu á að byggjast á því að vera í sem mestu návígi við þá starfsemi sem hún á að hafa eftirlit með, hvort sem það eru fiskveiðar eða fiskeldi í sjó. Lokun starfsstöðva í sjávarbyggðum á landsbyggðinni vekja því athygli og okkur til umhugsunar um hvað þar er á ferðinni og veikir í raun eftirlitshlutverk Fiskistofu, færir hana fjær vettvangi og dregur úr trúverðugleika stofnunarinnar.

Ég tel að Fiskistofa hafi mikilvægt hlutverk og hún verði að njóta trausts landsmanna í því hlutverki sem hún gegnir. Við endurskoðun á því regluverki sem mér heyrist hæstv. ráðherra boða verð ég líka að brýna hæstv. ráðherra til þess að efla þær starfsstöðvar sem eru vítt og breitt um landið næst vettvangi þar sem mikill uppgangur er, eins og á Vestfjörðum þar sem er fiskeldi og laxeldi í sjó og mikill sjávarútvegur.