143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

Fiskistofa og vinnubrögð stofnunarinnar.

[14:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir góða umræðu um þessi mál. Það er mikilvægt að eftirlitsaðilar í samfélaginu eigi gott samstarf við fyrirtæki og aðrar stofnanir. Það er það sem við viljum. Við viljum festu og skilvirkni í þessi mál.

Ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hann talar um að einfalda vigtarreglur og ég mundi segja að auka ætti skyldur löggiltra vigtarmanna og að öll fyrirtæki í sjávarútvegi sitji við sama borð varðandi vigtunarleyfi og þær aðferðir sem við beitum þar. Það má einfalda það verulega.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju að það er með ólíkindum að dregið skuli úr starfsemi Fiskistofu á landsbyggðinni. En það er í stíl við annað hjá ríkinu með allar stofnanir sem draga á úr rekstri hjá, það er alltaf byrjað á landsbyggðinni. Það er alveg sama hvað það er, það er svo sem ekki neitt nýtt.

Ég vil enn og aftur þakka kærlega fyrir þessa þörfu umræðu og ég hvet okkur þingmenn til að halda því áfram að ræða um eftirlitsiðnaðinn og þjónustuna. Hún þarf að vera markviss og við þurfum að eiga góðar stofnanir til að sinna eftirliti en það þarf að gerast með því að unnið sé með fólkinu og með fyrirtækjum á landinu en ekki á móti þeim. Oft virðist það vera þannig að eftirlitið beinist fyrst og fremst að því að vinna gegn hagsmunum fyrirtækjanna. Við þurfum að breyta því. Við þurfum að ná sátt í samfélaginu og vinna saman. Við erum lítið land og mjög mikilvægt að við virðum rétt hver annars.