143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[14:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um opinber skjalasöfn sem er ætlað að koma í stað laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985.

Hér er um að ræða endurskoðaða útgáfu þess frumvarps sem útbýtt var á Alþingi 19. mars 2013 á þskj. 1291, 692. mál á 141. löggjafarþingi, sem hlaut ekki afgreiðslu þá. Frumvarpið er nú lagt fram að nýju í örlítið breyttri mynd, m.a. í ljósi nýrra upplýsingalaga, nr. 140/2012, auk þess sem tekið hefur verið tillit til athugasemda sem borist hafa í samráði ráðuneytisins við Þjóðskjalasafn Íslands.

Fyrstu drög að frumvarpinu voru samin af starfshópi sem menntamálaráðherra skipaði 24. september 2008 og ætlað var að vinna að heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands. Samkvæmt erindisbréfi starfshópsins skyldi einfalda stjórnsýslu á málefnasviði Þjóðskjalasafnsins og skýra hana frekar með hliðsjón af fjölþættu hlutverki safnsins, stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í rekstri þess. Starfshópnum var ætlað að fara yfir einstök ákvæði laganna, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi atriðum: Reynslunni af gildandi lögum sem eru að stofni til frá 1985, athugun á stjórnsýslulegri stöðu Þjóðskjalasafns, samræmingu á reglum um aðgang almennings að skjölum úr mismunandi skjalasöfnum sem væru til varðveislu í safninu og með hvaða hætti slíkur aðgangur skyldi vera auk þess að skýra heimildir til innheimtu gjalds fyrir veitta þjónustu, samræmingu heimilda til að kæra synjun um aðgang að gögnum úr mismunandi skjalasöfnum hjá Þjóðskjalasafni, þeim valdheimildum sem Þjóðskjalasafni væru nauðsynlegar til að sinna hlutverki sínu og þá var starfshópnum ætlað að leita fyrirmynda í sambærilegri löggjöf og á Norðurlöndum við störf sín.

Starfshópurinn skilaði greinargerð um vinnu sína og tillögu sinni að nýju frumvarpi með bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra, dagsettu 26. október 2010. Í kjölfar skoðunar innan ráðuneytisins var ákveðið að senda frumvarpsdrögin til kynningar til ýmissa hagsmunaaðila, m.a. ráðuneyta, Alþingis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, skjalastjóra í Stjórnarráðinu, héraðsskjalavarða o.fl. Jafnframt voru þau lögð fram til almennrar kynningar á vef ráðuneytisins í desember 2010 og þeim sem vildu var boðið að senda ráðuneytinu ábendingar sínar um efni þeirra. Alls bárust erindi frá 15 aðilum í kjölfarið.

Tillaga starfshópsins um nýtt frumvarp til laga um þetta málefnasvið var í kjölfarið endurskoðuð af hálfu ráðuneytisins í ljósi fram kominna ábendinga og er þetta frumvarp lagt fram á grundvelli þeirrar endurskoðunar. Meginbreytingar sem frumvarpið hefur í för með sér frá gildandi lögum eru eftirfarandi:

1. Í frumvarpinu koma í fyrsta skipti fram efnisreglur þar sem tekið er af skarið um inntak þess réttar sem almenningur og aðrir eiga til aðgangs að skjölum í opinberum skjalasöfnum.

a. Þannig er í V. kafla frumvarpsins fjallað um upplýsingarétt almennings og getur hver sem vill nýtt sér þann rétt.

b. Í VI. kafla er fjallað um upplýsingarétt hins skráða en á grundvelli þeirra reglna á hver og einn rétt til aðgangs að skjölum um sig sjálfan og veita þær reglur almennt ríkari upplýsingarétt en reglur V. kafla.

c. Í VII. kafla laganna er fjallað um reglur sem heimila opinberu skjalasafni að veita aðgang að skjölum sem að öðrum kosti væru undanþegin upplýsingarétti samkvæmt V. og VI. kafla frumvarpsins, svo sem til vísinda- og fræðirannsókna með ákveðnum skilyrðum.

d. Til viðbótar þessum köflum er eins og í gildandi lögum sérstakur kafli um aðgang að gögnum um öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi á árunum 1945–1991.

e. Loks er sérkafli almenns eðlis um aðgang að skjölum rannsóknarnefnda Alþingis og skjölum vegna annarra verkefna sem Alþingi kann að ákveða með lögum að fela Þjóðskjalasafni Íslands að varðveita.

2. Frumvarpið er samið með það að markmiði að til verði heildstæðara kerfi en verið hefur um upplýsingarétt almennings og aðgang að gögnum hins opinbera. Þannig er ætlunin að ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012, og ákvæði laga nr. 23/2006, um upplýsingarétt um umhverfismál, ásamt ákvæðum þessa frumvarps til laga um opinber skjalasöfn myndi heildstætt og samræmt kerfi um upplýsingarétt almennings á þeim réttarsviðum sem falla undir gildissvið þeirra. Á því er byggt að um upplýsingarétt almennings fari samkvæmt upplýsingalögum og lögum um upplýsingarétt um umhverfismál fyrstu 30 árin frá því að skjal verður til. Eftir það fer um aðgang almennings samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn en í þeim er m.a. fjallað um tímamörk þess hvenær takmarkanir á upplýsingarétti almennings, sem koma fram í fyrrnefndum lögum, falla niður og upplýsingaréttur almennings rýmkar að sama skapi.

3. Allar reglur frumvarpsins eru á því byggðar að þær taki til hvers konar skjala og skiptir því ekki máli hvort skjal er rafrænt eða á pappírsformi. Reglur um aðgang almennings að skjölum taka því bæði til rafrænna skjala, skráa og gagnagrunna sem og hefðbundinna skjala á pappírsformi.

4. Í sérstökum kafla um stjórnsýslu er tekið fram að ráðherra fari með yfirstjórn opinberrar skjalavörslu og skjalastjórnar samkvæmt lögum og að Þjóðskjalasafn Íslands sé ráðherra til aðstoðar við stjórn málaflokksins.

5. Að því er varðar stjórnskipulag Þjóðskjalasafns er lögð til sú breyting að stjórnarnefnd safnsins verði þjóðskjalaverði til ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni en að þjóðskjalavörður fari með stjórn safnsins undir yfirstjórn ráðherra eins og algengast er að gildi um stofnanir sem eru lægra settar en ráðherra.

6. Í sama kafla er fjallað um leyfi til reksturs héraðsskjalasafna, umgjörð, starfsemi þeirra og eftirlit með henni.

7. Það er nýlunda í þessu frumvarpi að í almennum ákvæðum þess eru Þjóðskjalasafn Íslands og héraðsskjalasöfn sem starfa í samræmi við rekstrarleyfi skilgreind saman sem opinber skjalasöfn og er lagt til að lögin séu kennd við þau sameiginlega. Því fylgir að ákvæði frumvarpsins fjallar síðan að mestu um sameiginlegt hlutverk og skyldur allra opinberra skjalasafna nema annað sé tekið fram sérstaklega.

8. Í frumvarpinu er skýrari upptalning en áður á því hverjir teljist afhendingarskyldir aðilar. Lagt er til að afhendingarskyldir aðilar séu þeir lögaðilar sem eru 51% eða meira í eigu opinberra aðila í stað 50% samkvæmt gildandi lögum. Er hið nýja hlutfall í samræmi við skilgreiningu þeirra aðila sem upplýsingalög taka til en með því fækkar þó afhendingarskyldum aðilum.

9. Rétt er að benda á að samkvæmt frumvarpinu gilda lög þessi ekki lengur um Alþingi eða stofnanir þess nema annað sé tilgreint í lögum. Er sú breyting gerð í samræmi við tilmæli skrifstofu Alþingis, m.a. með tilvísun til þess að skjalasöfn þjóðþinga á Norðurlöndum falla ekki undir ríkisskjalasöfn viðkomandi landa og að norræn löggjöf sé skýr um sjálfstæða stöðu skjalasafna þessara þinga.

10. Í IV. kafla frumvarpsins koma fram ákvæði um skjalastjórn og skjalavörslu afhendingarskyldra aðila. Ákvæðin eru töluvert breytt frá gildandi lögum þar sem þess er freistað að skýrar liggi fyrir hver beri ábyrgð á skjalastjórn og skjalavörslu viðkomandi aðila, í hverju meginskyldurnar eru fólgnar og hvaða meginviðurlög liggja við ef reglurnar eru brotnar.

11. Í X. kafla frumvarpsins er að finna nýmæli um þau ákvæði sem fylgja ber við afgreiðslu á erindum um aðgang að skjölum í opinberum skjalasöfnum.

12. Lagt er til að úrskurðarnefnd um upplýsingamál skeri úr málum þar sem upp kemur ágreiningur um aðgang að skjölum í opinberum skjalasöfnum.

Virðulegi forseti. Ég tel vert að vekja sérstaklega athygli þingheims á þeirri breytingu frá gildandi lögum, þ.e. 5. gr. gildandi laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, sem felast í frumvarpinu, að Alþingi og stofnanir þess skuli ekki lengur afhendingarskyldar til Þjóðskjalasafns Íslands um gögn sín eins og ég gat um áðan. Sú breyting er sem fyrr segir lögð til í ljósi eindreginnar afstöðu skrifstofu Alþingis gegn afhendingarskyldu þess og undirstofnana Alþingis til Þjóðskjalasafnsins. Af hálfu Alþingis er krafan um breytinguna rökstudd með sjálfstæði löggjafarvaldsins, samkvæmt stjórnskipun lýðveldisins og því að í lögum annarra norrænna ríkja séu þjóðþingin undanskilin gagnvart ríkisskjalasöfnum. Ég vil þó benda á að það má halda því fram að þetta fyrirkomulag sé ekki hafið yfir gagnrýni og þess vert að velta því fyrir sér hvort sjálfstæði Alþingis sé í raun ógnað með afhendingarskyldu skjala til Þjóðskjalasafnsins. Ég vænti þess að málið verði rætt hér. Það var farin sú leið við framlagningu frumvarpsins að verða við eindregnum tilmælum frá skrifstofu Alþingis, en að sjálfsögðu er það Alþingi sjálft sem hefur valdið í málinu.

Ég vil nefna að verði þessi skipan mála sú endanlega, þ.e. að Alþingi sé ekki skilaskylt, kann að vera skynsamlegt að skoða það aðeins á vettvangi þingsins hvort setja beri sérstök lög eða reglur um varðveislu slíks skjalasafns á forræði Alþingis.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir efni frumvarps til laga um opinber skjalasöfn sem stuðlar að þeim markmiðum sem upphaflega voru sett fyrir endurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands jafnframt því sem leitast er við að samræma reglur um opinber skjalasöfn við nýlega breytingu á upplýsingalögum, nr. 140/2012.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að lokinni 1. umr.