143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[14:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt ábending hjá hv. þingmanni. Það er sem sagt nýmæli í þessu frumvarpi, ef að lögum verður, að Alþingi er ekki afhendingarskyldur aðili gagnvart Þjóðskjalasafni. Það þýðir að Alþingi gætir sjálft sinna gagna. Það þarf þá að tryggja í fyrsta lagi að fjármunir séu til að gera það, eins og þingmaðurinn bendir réttilega á. Eins er líka, og ég nefndi það í framsöguræðu minni, rétt að huga að því hvaða reglur gilda um varðveisluna, aðgengi o.s.frv. Þetta er í sjálfu sér ekki svo flókið mál en það þarf að huga að því verði þetta niðurstaðan.

Hitt er líka rétt að hafa í huga að Alþingi hefur í nokkrum sérlögum, t.d. um rannsóknarnefndir, kveðið sérstaklega á um að þau gögn skuli varðveitt í Þjóðskjalasafninu. Í þessu frumvarpi er því lagt upp með það í síðasta kafla frumvarpsins, ef ég man rétt, að Þjóðskjalasafnið geti veitt viðtöku gögnum frá Alþingi, m.a. vegna rannsóknarnefnda eða þar sem kveðið er á um það í sérstökum lögum um ákveðin mál eða önnur gögn sem Alþingi kýs að varðveitt verði í Þjóðskjalasafninu. Það er raunverulega búið þannig um hnútana að það er Alþingis að ákveða hvernig þetta er.

Fyrst og síðast held ég að það séu réttmætar ábendingar hjá hv. þingmanni að það þurfi að huga vel að öllum þeim aðstæðum sem þingið hefur til að geyma gögn og skjöl.