143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[14:58]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna í þessu máli. Eins og hann kom inn á í andsvari áðan þá er þetta afar yfirgripsmikið frumvarp og stendur kannski næst upplýsingalögum því að hér fellur svo margt þar undir sem er ekki einfalt að fara í gegnum á stuttum tíma. Kannski gefst frekara tilefni til að ræða það nánar við 2. umr.

Mig langaði aðeins að velta upp og spyrja hæstv. ráðherra um nokkur atriði. Það kemur fram í 6. gr. að ráðherra skipi fjóra menn í stjórnarnefnd Þjóðskjalasafns Íslands til fjögurra ára í senn og hvernig þeir eru tilnefndir, þ.e. af Sagnfræðistofnun háskólans, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn af fastráðnu starfsfólki Þjóðskjalasafns og einn skipaður án tilnefningar. Ég spyr ráðherrann: Hvers vegna er ekki neinn fulltrúi frá héraðsskjalasöfnunum, af hverju er ekki fulltrúi starfsmanna þeirra fimmti fulltrúinn þarna inni?

Líka er talað um stjórnarnefndina. Eins og ráðherra fór yfir er hún forstöðumanni safnsins og þjóðskjalaverði til ráðgjafar. Það má spyrja af hverju hlutverkið er ekki víðtækara. Það er svolítill einræðisbragur á þessu. Það þyrfti að vera stefnumótandi um leið og það tekst á við fagleg álitamál. Þó að fjárhagsleg ábyrgð sé enn óbreytt væri það kannski eðlilegra. Það er eingöngu ráðgefandi og allt saman í rauninni fært í hendur þjóðskjalavarðar. Hann verður mjög valdamikill embættismaður ef ég les þetta rétt. Nú spyr ég ráðherra hvort hann telji að þessu megi breyta. Það kemur líka fram í 43. gr. er varðar valdsvið þjóðskjalavarðar, þ.e. kæruheimild, að „[a]ðrar ákvarðanir en að framan greinir og teknar eru samkvæmt lögum þessum verða ekki kærðar til ráðherra“. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort það sé eðlilegt ef upp kemur til dæmis ágreiningur á milli héraðsskjalavarða og Þjóðskjalasafns og ekki tekst að leysa hann þeirra á milli. Þá er ekki hægt að kæra samkvæmt þessu ef ég skil það rétt. Ég bið ráðherrann að leiðrétta ef svo er ekki og spyr hann jafnframt líka hvort hann telji eðlilegt að héraðsskjalasöfnin og sveitarfélögin hafi í rauninni engan að leita til ef þau telja á sér brotið miðað við þetta. Það er svo víðtækt túlkunarvald á lögum sem honum er falið og snertir náttúrlega stjórnsýsluna alla. Ég spyr hann því um þetta.

Síðan er 12. gr. um afhendingu afhendingarskyldra skjala. Hvaða aðilar bera afhendingarskyldu til safnanna? Þetta er ekki alveg skýrt miðað við það sem ég reyndi að lesa mér til um áðan. Það er þetta með 30 árin, þ.e. að skjölin um okkur eru varðveitt í ákveðið mörg ár og við megum ekki fá að sjá persónuleg skjöl fyrr en eftir 30 ár eða þeir sem okkur tengjast. Er þetta ekki óþarflega langur tími? Svo er tíminn varðandi rafrænu skjölin. Hefur kvöðin um afhendingarskylduna verið kynnt eitthvað sérstaklega, þ.e. að skila rafrænum gögnum eftir fimm ár en afgreiða þau ekki fyrr en eftir 30 ár? Er það rétt skilið hjá mér í 12. gr. að Þjóðskjalasafn Íslands eigi rétt á einkaskjalasöfnum við ákveðnar aðstæður? Er það þá klárt því að hér var talað um persónurétt þar sem einstaklingar bera ekki afhendingarskyldu? Telur ráðherra að þetta sé alveg skýrt? Hver heldur utan um þetta? Snýr þetta að dánarbúum eða er þetta eitthvað annað?

Svo er 25. gr., sérstakar aðstæður. Þar stendur að „[þ]egar sérstaklega stendur á getur opinbert skjalasafn ákveðið að synja um aðgang að skjali sem er yngra en 110 ára, svo sem þegar það hefur að geyma upplýsingar um einkamálefni einstaklings sem enn er á lífi eða um almannahagsmuni er að ræða“. Það er sem sagt alfarið undir þjóðskjalaverði komið að ákveða engan aðgang að þessum skjölum, er það ekki eða hvað? Hér kemur ekki fram að öðru leyti sé hægt að skjóta þessu til ráðherra, eða hvað? Ég bið ráðherra að leiðrétta mig ef það er ekki rétt.

Þetta var það sem mig langaði svona í fyrsta kasti að nefna. Þetta er mjög efnismikið og yfirgripsmikið mál. Það eru auðvitað alltaf fyrst og fremst póstarnir sem snúa að persónuvernd og í rauninni rétti fólks til að fá upplýsingar um sjálft sig eða hverju beri að skila af sér, en af því að ráðherra hristir hér höfuðið má ég þá skilja það þannig að það verði eitthvert fjölskipað aðhaldsráð, reyndar eru þessi fjórir sem er ætlast til að séu skipaðir í stjórnarnefndina — af því að hér er bara talað um að nefndin verði ráðgefandi skil ég það þannig að þjóðskjalavörður hafi mjög mikil völd. Þess vegna spyr ég um afhendinguna, 110 ár eða 30 ár.

Ég er að hugsa um að láta þetta duga við 1. umr. og heyra hvaða svör ráðherra hefur við því sem ég hef hér spurt að svo að við getum haldið samræðunni áfram.