143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[15:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður bendir hér á nokkur atriði og þau eru öll til þess fallin að ræða vel í meðferð nefndarinnar og áfram við 2. umr. Ég reikna með að við tökum þetta kannski án þess að fara ofan í smáatriðin í þessari umferð.

Hvað varðar fyrstu spurninguna um fulltrúa starfsmanna héraðsskjalasafna í stjórnarnefndinni er rétt að geta þess að sveitarstjórnarstigið á fulltrúa í nefndinni. Héraðsskjalasöfnin eru þar undir. Það væri ekki eðlilegt að safnverðir á héraðsskjalasöfnum væru þar umfram. Þetta er sem sagt hluti af því stjórnsýslustigi. Því væri óeðlilegt, að mínu mati, að þeir sætu í þessari nefnd. Sá háttur er því ekki hafður á.

Menn hafa auðvitað velt þessu svolítið fyrir sér, stöðu héraðsskjalasafnanna annars vegar og Þjóðskjalasafnsins hins vegar, og ég veit að uppi hafa verið hugmyndir um að stofna nýja stofnun sem yrði þá yfirstofnun á sviði þessara mála. Undir þá stofnun mundu Þjóðskjalasafnið og héraðsskjalasöfnin heyra sem jafnstæðar stofnanir sem störfuðu þá undir þessum hatti. En ég tel ekki ástæðu til að setja af stað nýja ríkisstofnun heldur hafa þennan háttinn á sem ég tel að verði mjög til bóta almennt, þ.e. þessi lög skýra mjög þær kröfur sem gerðar eru til safna um verklag, öryggi, aðgang og annað slíkt og samstarfið á milli héraðsskjalasafnanna og Þjóðskjalasafnsins; og eins líka skyldu sem er þá hjá afhendingarskyldum aðilum, eins og t.d. sveitarfélögunum, hvernig þau eiga að fara með það að þau geta stofnað héraðsskjalasöfn eða gert það í byggðasamlagi eða þá að þau þurfa að fá að skila til Þjóðskjalasafnsins. Í sjálfu sér er megintilgangurinn sá að það sé bara tryggt að skjöl séu varðveitt með tryggilegum og öruggum hætti og að aðgangur að þeim sé í sama kerfi, hvort sem um er að ræða í héraðsskjalasafni eða Þjóðskjalasafninu.

Hlutverk ráðgjafarnefndarinnar sem hér um ræðir er nákvæmlega það sama og hjá Stofnun Árna Magnússonar, hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, sama fyrirkomulag og er þar.

Ég nefndi það í ræðu minni í upphafi um þessa nefnd og hlutverk hennar; það væri þá þannig að ef til ágreiningsmála kæmi, þar sem einstaklingur eða annar lögaðili teldi á sér brotið varðandi aðgengi að skjölum, þá væri sem sagt kæruleið til úrskurðarnefndar, sú leið væri alltaf opin. Ef menn telja á sér brotið þá hafa menn þar leið.

Almennt hvað varðar tíma sem líður þar til skjöl eru opinber eru í sjálfu sér engar breytingar þar á í þessu frumvarpi frá núgildandi rétti, ég held að það sé svona almenna reglan. Það er með einhverjum undantekningum þó. Þá er það til að færa til samræmis við upplýsingalög, lög um upplýsingar varðandi náttúru og annað slíkt. Það er þá til samræmis við það sem þó þegar er í núgildandi rétti þannig að ekki eru teknar neinar þrengjandi eða ívilnandi ákvarðanir hvað þetta varðar. Þetta er bara til samræmis.

Það er þó þannig að vegna hærri lífaldurs þegar kemur að ákveðnum málum, eins og hv. þingmaður nefndi, þá getur verið um það að ræða að þar sem áður hafi verið miðað við 100 ára tíma verði miðað við 110 ár. Það er vegna þess að fólk lifir lengur. Almennt er síðan reynt að búa þannig um hnútana að reyna til dæmis að samþætta sem best þau sjónarmið sem eru annars vegar upplýsingaréttur og hins vegar réttur einstaklinga til friðhelgi, það er að þurfa ekki að láta af hendi upplýsingar um persónulega hagi, að upplýsingar af því tagi séu ekki látnar af hendi umfram það sem eðlilegt er. Fjöldamörg ákvæði og varnaglar eru slegnir þar en það er alltaf á grundvelli þeirrar hugsunar að jafnvægi þurfi að vera á milli þessara hluta.

Í sjálfu sér get ég ekki sagt fleira um þetta mál að sinni. Ég óska auðvitað nefndarmönnum alls hins besta, hv. þingmönnum, við yfirferð á frumvarpinu. Ég tel frumvarpið mjög mikilvægt. Um er að ræða mjög mikilvægt mál sem kallar á að menn fari enn og aftur vel yfir alla þessa þætti. Um er að ræða mikilvægt réttaröryggi borgaranna, að upplýsingar um grundvallarmálefni, eins og eignarrétt og annað slíkt, séu varðveittar, aðgengilega og tryggilega, þannig að menn geti gengið að þeim vísum. Það er gríðarlega mikilvægt og má segja að það sé ein af grundvallarstoðum okkar samfélagsgerðar að vel sé haldið um öll skjöl og allt sem þeim viðkemur.