143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[15:13]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég ætla ekki að lengja umræðuna að sinni en ég er ekki alveg sammála honum þegar hann líkir þessu við stjórn Árnastofnunar eða Landsbókasafnsins. Mér fannst hann rökstyðja sjálfur í lokin hvers vegna það er ekki sambærilegt, þ.e. vegna þess að í héraðsskjalasöfnunum eru auðvitað miklu persónulegri mál en nokkurn tíma á Árnasafni eða á Landsbókasafni Íslands. Mér finnst við því ekki geta stillt því upp hlið við hlið þegar kemur að því að segja að stjórnarnefndin sé ráðgefandi. Í mínum huga ætti hún að vera stefnumótandi og eins ætti að vera hægt að leita til hennar í tengslum við fagleg álitamál.

Ég tek undir með ráðherranum þegar hann segir að það sé afar margt í þessu sem þarf að fara vel yfir. Ég sit ekki í nefndinni en hef svo sem alltaf haft áhuga á þessum málum. Þetta er eitt af því sem litlu sveitarfélögin glíma við að reyna að halda úti og hefur fengið mismikið vægi þar, það verður að segjast eins og er. Ég hef sjálf aðeins grúskað í svona skjölum og þess vegna finnst mér þetta vera eitthvað sem þarf að fara vel í af hálfu nefndarinnar, ekki einungis er varðar persónuverndarmál og upplýsingamál heldur er örugglega margt annað þarna sem þarf að fara yfir og þar á meðal kannski það að einn forstöðumaður fái ekki of mikil völd að óþörfu ef við getum haft það með öðrum og lýðræðislegri hætti.