143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[15:17]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að við tökum okkur hér tíma til að ræða þetta mikilvæga mál. Eins og flestir vita er PISA-könnunin alþjóðleg og henni er ætlað að meta stöðu menntakerfa með því að prófa þekkingu og færni 15 ára nemenda. Könnunin sem Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, hefur lagt fyrir á þriggja ára fresti frá árinu 2000 er umfangsmesta rannsókn sem gerð er í menntamálum í heiminum í dag. Hún nær til 65 landa sem til samans standa fyrir 90% af hagkerfi heimsins.

Niðurstöður PISA hafa mikið vægi í alþjóðlegri umræðu um menntamál og taka stjórnvöld víða um heim hliðsjón af þeim í stefnumótun sinni. Sem dæmi má nefna að bæði Danir og Þjóðverjar réðust í umbætur á sínu menntakerfi eftir að niðurstöður úr fyrstu PISA-könnuninni lágu fyrir árið 2000. Eins hafa Svíar ákveðið að láta gera sérstaka úttekt á stöðu síns menntakerfis eftir síðustu niðurstöður PISA.

Virðulegi forseti. Hvað er það sem PISA-könnunin mælir? PISA hefur ekki bein tengsl við námskrár viðkomandi landa eða skólanámskrár. Prófunum er ætlað að meta hvernig nemendur, sem eru að ljúka skyldunámi, geti beitt þekkingu sinni í aðstæðum sem þeir gætu mætt í lífinu og hvernig þeir eru undirbúnir til fullrar þátttöku í samfélaginu. Þannig má segja að til þess að geta tekið þátt í nútímasamfélagi sé það grundvallarforsenda að geta lesið til að geta aflað sér skilnings á þeim málefnum sem uppi eru. Einnig er mikilvægt að ungt fólk hafi kunnáttu í stærðfræði til að meta gögn og upplýsingar sem settar eru fram á tölulegu formi og kunni skil á helstu hugtökum náttúruvísinda. Þessi atriði eru metin í PISA með prófum á lesskilningi og læsi á stærðfræði og náttúrufræði. Með upplýsingum sem aflað er með bakgrunnsspurningum er unnt að túlka niðurstöður með vísan til þátta svo sem félagsstöðu nemenda og aðbúnaðar í skólum. Með því að bera saman árangur nemenda í PISA milli ára og hvernig þeir standa í samanburði við jafnaldra sín í öðrum löndum er hægt að leggja visst mat á stöðu íslensks menntakerfis.

Virðulegi forseti. Nú mun ég víkja að helstu niðurstöðum PISA fyrir Ísland. Íslenskir nemendur hafa að jafnaði staðið nokkuð vel hvað varðar læsi á stærðfræði. Árið 2000 var Ísland vel yfir meðaltali OECD-landa með 515 stig. Í mælingum PISA árið 2012 var Ísland við meðaltal OECD-ríkja í stærðfræði með 493 stig. Staða íslenskra nemenda í náttúrufræði hefur verið vel undir meðaltali frá því að mælingar á þeim þætti hófust árið 2006 og árið 2012 var meðaltalið fyrir Ísland 478 stig, sem er marktækt undir 498 stiga meðaltali OECD.

Í lesskilningi var meðaltalið fyrir Ísland árið 2012 483 stig, sem er marktækt undir meðaltali OECD sem er 496 stig. Árið 2000 var Ísland vel yfir meðaltali OECD með 507 stig. Árangur í lesskilningi hefur dalað um 29 stig frá árinu 2000 og læsi á stærðfræði um 22 stig frá árinu 2003. Til að átta sig á hvað þessi þróun þýðir hvað varðar árangur íslenskra nemenda í PISA er hvert ár í skóla metið á um 45–50 stig. Það þýðir að árangur íslenskra nemenda í stærðfræði og lesskilningi árið 2012 jafngildir því að þeir hafi verið hálfu ári skemur í skóla en jafnaldrar þeirra þegar próf í þessum greinum voru fyrst lögð fyrir árin 2000 og 2003. Ég legg áherslu á að hér er ekki verið að bera saman við önnur lönd heldur hjá okkur sjálfum, verið er að tala um jafnaldra þeirra sem tóku prófið núna og þeirra sem tóku það árin 2000 og 2003 á Íslandi.

Það er enginn einn hópur nemenda sem dregur árangurinn niður. Nemendur á öllum getustigum standa sig verr. Nemendum sem ná bestum árangri í stærðfræði og lestri hefur fækkað og að sama skapi hefur þeim sem standa sig illa fjölgað. Hvað varðar lesskilning varð hlutfall nemenda á neðstu þrepum, þ.e. sem náðu ekki þrepi tvö, 15% árið 2000 og var komið í 21% árið 2012. Sá hópur sem lendir undir hæfnisþrepi tvö er sá sem ekki getur lesið sér til gagns, eins og það er stundum orðað, 21%.

Einhver stærstu tíðindi í PISA-könnuninni 2012 fyrir Ísland er sá munur í árangri sem er staðfestur á milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar. Á höfuðborgarsvæðinu er árangur í stærðfræði 504 stig, sem er fyrir ofan meðaltal OECD, en í öllum öðrum landshlutum er árangurinn undir 500 stigum, frá 493 stigum á Vesturlandi og niður í 451 stig á Suðurnesjum. Í lesskilningi er kynjamunur í öllum þátttakendalöndunum strákum í óhag en meðaltal OECD var 38 stiga munur. Á Íslandi er munur milli stráka og stelpna 51 stig og hefur heldur aukist frá árinu 2000 þegar munurinn var 40 stig. Hlutfall stráka á Íslandi sem lenda undir hæfnisþrepi tvö var 30% árið 2012 og hafði aukist um 10 prósentustig frá árinu 2000. Um 12% stelpna lenda í sama hópi og hefur aukningin þar numið 4 prósentustigum.

Virðulegi forseti. Vík ég þá að viðbrögðum við niðurstöðum PISA. Varast ber það að draga of víðtækar ályktanir af niðurstöðum PISA og leggja á grundvelli þeirra einhvers konar heildardóm um stöðu menntunar á Íslandi. Menntun er miklu meira en færni í lestri eða reikningi. PISA mælir ekki sköpunarkraft, hæfni til þátttöku í lýðræðislegri umræðu eða þann almenna þroska sem felst í góðri menntun. Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að góður lesskilningur, að skilja og meta tölulegar stærðir og þekkja til þeirra fræða sem varpa ljósi á þróun náttúrunnar er nauðsynleg forsenda til þess að einstaklingur geti menntast til starfa og þátttöku í nútímaþjóðfélagi. Því ber að taka niðurstöður úr PISA-könnunum alvarlega, draga lærdóm af þeim og nýta til uppbyggingar í íslensku menntakerfi.

Ytri aðbúnaður íslenskra grunnskólanema er góður á alþjóðlega vísu. Framlög á hvern nemanda eru mjög há í samanburði við önnur lönd, stöðugildum kennara hefur fjölgað um 23% á milli áranna 2000 og 2012. Á sama tíma fækkaði grunnskólanemum um 2,9% og árið 2000 voru 12,7 nemendur á hvert stöðugildi kennara en árið 2012 voru 10 nemendur á hvern kennara. Menntun kennara hefur batnað. Árið 2000 voru 81% kennara með kennsluréttindi, en árið 2012 var hlutfallið komið upp í 96%. Stuðningur hefur verið aukinn og sérfræðiþjónusta bætt við nemendur með sérþarfir. Á milli áranna 2000 og 2012 fjölgaði stöðugildum sérkennara um 66% og árið 2012 voru meira en tvöfalt fleiri stöðugildi stuðningsfulltrúa og uppeldisfulltrúa en árið 2000. Á sama tíma fjölgaði nemendum sem nutu sérkennslu um 8%. Á tímabilinu fjölgaði kennsludögum á skólaárinu um tíu daga þannig að við lok grunnskóla höfðu nemendur fengið 100 fleiri kennsludaga, sem jafngildir 20 kennsluvikum. Skólagangan hefur því lengst um meira en hálft skólaár.

Virðulegi forseti. Það eru því allar ytri forsendur fyrir því að íslenskir nemendur standi sig vel á alþjóðlegum prófum eins og PISA. Áður en niðurstöður PISA 2012 birtust hafði ég sett af stað í ráðuneytinu skoðun á því hvernig styrkja mætti grunnstoðir í íslensku menntakerfi. Afrakstur þeirrar vinnu mun líta dagsins ljós á næstu vikum með útgáfu hvítbókar um umbætur í menntamálum. Við undirbúning hvítbókarinnar hefur verið sérstaklega horft til lesturs og lesskilnings á grundvelli PISA-rannsóknarinnar. Einnig hefur verið unnið að greiningu á námsframvindu nemenda í framhaldsskólum. Ljóst er að þessir tveir þættir eru tengdir en ef nemendur hafa ekki náð tökum á lestri við lok grunnskóla munu þeir að öllum líkindum eiga erfitt uppdráttar í framhaldsskóla.

Þegar leitað er leiða til þess hvernig bæta má árangur nemenda í PISA er tilhneiging til þess að rannsaka frekar og finna skýringar á stöðunni eins og hún er nú. Vissulega er það mikilvægt að leitast við að skilja ástæður þess að þróunin hér á landi hefur verið eins og raun ber vitni, en það eru hins vegar margir þættir sem hafa áhrif á þróun menntakerfa. Sumir liggja innan skólanna en aðrir utan þeirra svo sem hvað ungt fólk les mikið og það skiptir reyndar alveg gríðarlega miklu máli. Það er ekki bara inni í skólanum sjálfum sem það gerist, það gerist líka á heimilunum, að krakkarnir lesi og æfi sig að lesa heima.

Svo má heldur ekki vanmeta að horfa til reynslu annarra þjóða, hvernig aðrar þjóðir hafa ráðist í umbætur sem hafa skilað árangri og hægt er að finna nokkur mjög góð dæmi þess. Má þar nefna t.d. nokkur fylki í Kanada og Þýskaland sem dæmi um vellukkaðar úrbætur.

Eitt af því sem má læra af reynslu annarra þjóða er að setja sér fá en skýr markmið sem unnið er að. Einnig að skapa jákvæð viðhorf til umbóta hjá sem flestum í samfélaginu og byggja aðgerðir á sannreynanlegum gögnum og rannsóknum. Nefna má nokkur svið sem þar skipta máli. Fyrst er að nefna menntun og störf kennara. Allar rannsóknir benda til þess að kennarar séu lykilgerendur í umbótum. Þá þarf að styðja í starfi og efla menntun þeirra. Annað sem liggur beint fyrir er að taka til athugunar skipulag námstímans í aðalnámskrá. Hvað varðar lestrarkennslu er hlutfall kennslustunda sem varið er til móðurmálskennslu mun lægra hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum og vísbendingar eru um að verulega dragi úr lestrarkennslu í grunnskólum eftir fjórða bekk. Fleira mætti nefna sem máli skiptir, virðulegi forseti, svo sem kennsluhætti, námsgögn og stöðu nemenda af erlendum uppruna.

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka fyrir það tækifæri að fá að flytja þinginu þessa skýrslu. Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægt verkefni sem okkar bíður og ég vil sérstaklega nefna eitt. Það verða ekki gerðar umbætur á menntakerfinu í (Forseti hringir.) einum rykk með einhverju einu stóru átaki. Það mun taka langan tíma (Forseti hringir.) þar til við förum að sjá árangur því að menntakerfin eru flókin, viðkvæm og vanda (Forseti hringir.) þarf mjög vel til verka.