143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[15:33]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir frumkvæðið að þessari umræðu sem er afar mikilvæg. Ég vil líka fagna því sérstaklega hversu hófstillt hún er og fer yfirvegað í gang, því þetta er ákveðið kjörlendi fyrir yfirlýsingar sem eru kannski án innihalds. Ég held að það sé kannski ekki síst því að þakka að það er dálítið um liðið síðan skýrslan kom út og umræðan hefur fengið að gerjast og þróast.

Það er svo sem ekki að ástæðulausu að þessi könnun hefur verið mikið í umræðunni því það kemur í ljós að lesskilningi íslenskra nemenda hefur farið aftur frá síðustu mælingu, en það kemur líka fram að íslenskir nemendur standa sig verr í stærðfræði og fer aftur í náttúrulæsi frá síðustu könnunum. Það er því ákveðin afturför sem er eins í þessum þremur þáttum sem bendir til þess að við séum ekki að tala um eitt tiltekið atriði heldur frekar einhvers konar samspil.

Ég vil líka fagna þeim tóni sem er í máli hæstv. ráðherra og hv. þm. Guðbjartur Hannesson var á svipuðum slóðum, þ.e. að varast að draga of víðtækar ályktanir. Ég held að við þurfum bara að segja það fullum fetum að það þarf að styrkja verulega menntarannsóknir á Íslandi. Það er það sem okkur vantar því svona niðurstöður vekja fyrst og fremst fjöldann allan af spurningum. Við þurfum að hafa verkfærin og tækin til þess að takast á við þær spurningar og takast á við þær vangaveltur.

Hver er staða ungmenna almennt á Íslandi? Hvað eru þau að gera? Vinna þau með skóla? Hvernig verja þau tíma sínum almennt? Hvernig er búið að þeim á heimilunum? Þær vísbendingar sem við fáum þarna endurspegla kannski miklu víðtækari umræðu og miklu stærri. Þess vegna er líka afar mikilvægt að horfa ekki bara til skólans heldur ekki síður til samfélagsins í heild. Hvaða kennileiti sjáum við í samfélaginu í heild að því er varðar umhverfi barna og ungmenna? Þetta þarf allt saman að vera undir.

Ég er fegin því að umræðan snýst ekki um það að líta til kennsluaðferða eða viðmiða í þeim löndum sem „best skora“ í þessari könnun, því það er ekki þau lönd sem við viljum bera okkur saman við og það er sannarlega heldur ekki þannig að í þeim löndum líði börnunum vel.

Það er kannski ekki síður ástæða til að skoða það sem kemur vel út í könnuninni, þ.e. hinar jákvæðu niðurstöður. En í skýrslunni segir m.a. að niðurstöður sýni, með leyfi forseta, „jákvæða þróun á skólabrag og bekkjaranda undanfarinn áratug. Stuðningur kennara við nemendur sem var mikill hefur aukist mjög, samband nemenda við kennara hefur styrkst mikið, nemendur samsama sig nú mun betur nemendahópnum í skólanum“ o.s.frv.

Þarna erum við með mælanlega styrkleika sem er alltaf grundvöllurinn til þess að byggja umbætur á. Það er held ég gott veganesti í öllu skólastarfi og öllu uppeldisstarfi að byggja á styrkleikum nemendanna og byggja á styrkleikum skólaumhverfisins. Þessi styrkleiki er umtalsverður auður sem við höfum í íslenska skólakerfinu, þ.e. vellíðan nemendanna sjálfra fer vaxandi.

Hér hefur verið velt upp spurningum um kynjamun. Mig langar líka til að staldra við umfjöllun sem hér hefur þegar verið vikið að í umræðunni, um muninn á þéttbýli og dreifbýli. Það er áhyggjuefni. Þarna er mjög afgerandi munur sem verður að athuga betur. Þá finnst mér full ástæða til að velta fyrir sér: Endurspeglast þarna almennur vandi dreifbýlisins, atvinnuvandi, almennar tilhneigingar í byggðaþróun, menntunarstaða o.s.frv. í hinum dreifðu byggðum landsins? Er ekki mikilvægt að skoða þetta allt saman í samhengi? Eru skólarnir of mikið miðaðir við þéttbýlið? Er skipulagið, menntastefnan og námskráin aðallega miðuð við þarfir þéttbýlisins? Er það normið og hitt einhvers konar frávik frá því? Er þetta eitthvað sem við þurfum að skoða frekar?

Grundvallaratriðið er þetta og punkturinn sem ég vil skilja eftir í umræðunni er að það verður að leggja fé og mannafla í rannsóknir til að skoða þetta allt saman betur. Eins og kemur fram í máli hæstv. ráðherra má ekki hrapa að niðurstöðum heldur að byggja á styrkleikum okkar skóla.