143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[15:47]
Horfa

Guðlaug Elísabet Finnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Menntun ætti að stuðla að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Menntun snýst um að gera barn að bestu og sterkustu útgáfu af sjálfu sér. Hún snýst um læsi á samfélagið, menningu, umhverfi og náttúru, þannig að börn og ungmenni læri að bjarga sér og vinna með öðrum. Menntun snýst um að fá nemendur til að vilja hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu. Markmiðið er að stuðla að alhliða þroska allra barna og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi.

Þeir sem þekkja til skólastarfs vita að margir mikilvægir þættir í skólakerfi okkar eru ekki metnir í PISA-rannsókninni. Í kjölfar birtingar niðurstaðna síðustu könnunar voru margir sem tjáðu sig um málið. Umræða um starfshætti grunnskóla var mikil og ýmsir dregnir til ábyrgðar í þessum efnum. Sumir benda á að prófið sé gamaldags, sé ekki í tengingu við nútímakennslu, íslenskt skólakerfi eða íslenskt samfélag, að taka þurfi mið af menningu og skólahefð þegar niðurstöður eru skoðaðar og fleira væri hægt að nefna. Margar góðar og athyglisverðar pælingar.

Niðurstaðan um læsi kemur ekki á óvart. Síðasta PISA-könnun og aðrar innlendar kannanir hafa sýnt það sama þegar kemur að hefðbundnum skilningi okkar á lestrargetu. Nú hefur verið unnið markvisst að því í nokkur ár að bæta læsi á yngri stigum grunnskólans. Skólar hafa sett sér lestrarstefnur og unnið markvisst að því að efla lestur og lesskilning. Þessir nemendur munu ekki taka þátt í könnuninni fyrr en eftir nokkur ár og áhugavert verður að fylgjast með þeirri þróun. Það sem þarf hins vegar að skoða nú er lestrarkennsla á mið- og unglingastigi, en þar virðist vægi lestrarkennslu minnka.

Mikilvægt er að undirstrika að þau 30% drengja sem komu illa út úr rannsókninni eru ekki ólæs. Börn nota lestur að mörgu leyti öðruvísi í dag en áður hefur þekkst. Þau eru klár í að skima en bæta þarf lestur í þeim skilningi að geta lesið sér á dýpri hátt til gagns, meðtekið upplýsingar og miðlað nýrri þekkingu.

Nýjar kenningar í kennslufræðum vísa til fleiri tegunda læsis, til að mynda stafrænt læsi sem vísar til þeirrar kunnáttu sem þarf að tileinka sér til að geta notað tölvu og nettækni til samskipta og efnissköpunar af ýmsu tagi. Þetta snýst um orð jafnt sem ljósmyndir, prentað mál jafnt sem tónlist. Í þessu eru krakkarnir okkar mjög fær.

Læsi einskorðast ekki við skóla. Rannsóknir sýna að tengsl barna við foreldra og kennara eru jafnan talin forsenda fyrir árangri nemenda og öflugu skólastarfi. Mikilvægt er að þörfum foreldra sé mætt með það að markmiði að efla foreldrahlutverkið. Við eigum góða grunnskóla, góða kennara og frábæra nemendur. Í okkar litla og þétta samfélagi hafa heimili og skóli alla burði til að ná djúpum og góðum tengslum.

Virðulegur forseti. Við eigum að vera ánægð meðan kannanir sýna að börnunum okkar líður vel í skólanum. Ef barni líður vel og finnst það öruggt, þá fyrst er það tilbúið til þess að njóta þess að læra.