143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[15:51]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Síðasti ræðumaður sagði eiginlega nákvæmlega allt sem ég vildi sagt hafa. Ég vil þakka fyrir umræðuna. Mér finnst hún góð.

Ég er hjartanlega sammála því að í mínum huga skiptir jafn miklu máli að börnunum okkar líði vel í skólanum og þar komum við ekki illa út. Ég var að lesa greinarstúf sem ég fann á The Guardian frá því 1. desember í fyrra þar sem var verið að fjalla um þessa könnun. Það er mjög mikilvægt að við lítum á hana sem ákveðna vegstiku, eina af mjög mörgum. Þau lönd sem koma best út úr skoðanakönnuninni — ég fór og prófaði sjálf og þetta er próf sem gerir í því að rugla fólk og ég hef aldrei borið mikla virðingu fyrir þannig prófunum á getu — eru með öðruvísi hefðir við kennslu. Þar er oft á tíðum gríðarlegt álag á nemendum. Þá er ég að tala um lönd þar sem mikil keppni er í skólum um að vera bestur og efstur. Það er ekkert endilega sá andi sem ég mundi vilja sjá í skólum hérlendis. Ég held að við séum komin af því stigi.

Það sem mér finnst vanta upp á og mundi gjarnan vilja að yrði gerð bót á eru ítarlegri rannsóknir á skólastarfinu á Íslandi þannig að við höfum eitthvað að miða okkur við. Ég hef ekki áhyggjur nema kannski af drengjunum okkar af því að hérlendar rannsóknir sýna að drengirnir fá ekki nægilega mikinn stuðning til þess að geta blómstrað í skólastarfi. Ég held að við ættum að nota tækifærið og leyfa okkur að nýta áhuga nemenda og umræðu um meira kennsluefni og fleiri stundir í verklegu nám. Sama námið hentar ekki öllum. Hér er ákveðin stefna í menntamálum sem á að tryggja að hver nemandi fái einstaklingsmiðaða kennslu en það eru ekki til nægilegir fjármunir til þess að tryggja að svo sé. Þá brú mundi ég vilja sjá styrkta af því að hún er orðin dálítið slöpp. Síðan þarf náttúrlega að veita fé í námsgögn.

Það sem ég hef tekið eftir, og kom reyndar fram í umræðunni um málið, er að kannski er svo ör tækniþróun í dag að heimili og skólar fylgjast ekki að. Við gætum þurft víðtækara samstarf á milli foreldra og skóla eins og oft er talað um, en það næst oft ekki almennilega af því að álag á kennara, börn, nemendur er mikið. Það er mjög mikið áreiti. Það má vera að við séum með börnin okkar í of miklu prógrammi. Eftir skóla er oft gríðarlega mikið félagsstarf sem þau þurfa að taka þátt í, alls konar íþróttir og tómstundir. Það er frábært fyrir krakkana en kemur niður á hinu bóklega námi. Við verðum að skoða hlutina í samhengi.

Ég fagna því hvað umræðan hefur verið hófstillt. Þetta er ekki dómsdagsspá, en ætti vissulega að vekja okkur til umhugsunar um hvað við getum gert betur.