143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[15:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni sagði ég að ég mundi kannski fara aðeins betur yfir það á hvað eigi að horfa vegna niðurstöðu í PISA-könnunni og hver grundvöllurinn sé. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að almennt búum við við gríðarlega gott skólakerfi. Við erum með afburðaleikskóla. Við erum með öfluga grunnskóla og líðan nemenda er betri. En það skilar sér ekki í þennan mælikvarða. Það kallar á að við greinum betur hvað veldur og hvernig við getum náð betri árangri.

Það sem við verðum auðvitað að horfa til, og það hefur komið fram hér í umræðunni, eru þeir sem hæstv. ráðherra kallaði lykilstarfsmenn, sem ég tek heils hugar undir, sem eru kennararnir og skólastjórnin. Þar reynir á. Nýtum við starfskrafta þeirra með réttum hætti? Sköpum við þeim rétt umhverfi og verkfæri? Er nægilegt og gott aðgengi að kennslugögnum og þekkingu hvað þau varðar? Allt þetta þarf að skoða og fara yfir í framhaldi af þessari umræðu.

Við megum heldur ekki gera lítið úr því að það er til lítils að bæta við 30 mínútum á viku í einhverju ákveðnu kennsluefni, hvort sem það er í lestri eða öðru, ef heimilin standa ekki þétt á bak við börnin og gera miklar kröfur og taka þátt í að tryggja það að börn nái árangri, bæði með því atlæti sem þau búa við á heimilinu, þeim áhuga sem foreldrar sýna og þeim viðhorfum sem endurspeglast hjá viðkomandi aðilum.

Ég velti því fyrir mér og hef sagt: Hvaða viðhorf höfum við almennt til menntunar? Höfum við metnað til þess að skila árangri í námi? Hver er almenna umræðan úti á landsbyggðinni? Er hún um það að ná góðum árangri, að það skipti máli að ljúka námi? Eða er hún sú að við eigum að komast sem fyrst út á vinnumarkaðinn og skapa okkur tekjur þar? Ef við horfum til þess tíma sem við fórum í gegnum fyrir hrun þar sem nánast var hægt að ganga inn í vinnu hvenær sem var, var oft erfitt fyrir menntakerfið að færa rök að því að ástæða væri til þess að halda áfram í námi eða undirbúa sig til frekara náms, vegna þess að strax við 16, 17, 18 ára aldur var hægt að ganga inn í starf sem skilaði verulega góðum tekjum. Hefur þetta áhrif á umhverfið?

Ég tel sjálfur og það hefur oft komið fram annars staðar að það sé hægt að gera það skemmtilegt að skila sinni vinnu og sýna árangur. Góð líðan er forsenda fyrir góðum árangri, en það þýðir ekki að maður þurfi ekki að gera kröfur eða að draga fram metnað. Þá verðum við líka að gæta að því að kröfurnar séu miðaðar við hvern og einn einstakling, að þær séu miðaðar við það að hver og einn bæti sig, skili sínu besta, nái sínum besta árangri og fái hrós og hvatningu í samræmi við það. Það er auðvelt að gera þetta þannig að fólk gefist upp einfaldlega vegna þess að það getur ekki náð þeim árangri sem best er að ná. Eins þurfa þeir bestu að fá hvatningu til þess að skila því besta sem þeir geta á hverjum tíma.

Við þurfum líka að velta vöngum yfir því hvernig stendur á því að Ísland er með mjög lágt menntunarstig á almennum vinnumarkaði. Af hverju erum við með 30% að störfum í dag sem hafa eingöngu lokið grunnskóla á sama tíma og önnur lönd eru með miklu meiri framhaldsmenntun? Eru einhver skilaboð í því? Eru það þeir foreldrar sem skila minni væntingum, án þess að ég ætli að hafa uppi einhverja fordóma, þvert á móti? Það er ekki beint samhengi á milli efnahags og árangurs, það er hægt að sjá í þessum könnunum. Það er líka hægt að sjá það sem er mjög jákvætt við íslenskt menntakerfi að inntaka í skóla er mjög jöfn. Það er ekki flokkað inn í skólakerfið. Það á líka að skapa okkur tækifæri til að ná enn þá betri árangri. Það er umhverfi sem við erum öfunduð af í heiminum, ég tek bara Bretland sem dæmi þar sem fólk er flokkað inn í skólakerfið og fær mjög mismunandi þjónustu eftir því hver efnahagur foreldranna er.

Eins og hér hefur komið fram hjá flestum kallar svona könnun fram ótal spurningar sem við verðum að fara í gegnum og verðum að ræða á jákvæðan hátt. Við höfum góðan grunn en við getum gert betur. En við megum aldrei gleyma öllum hinum þáttunum. Við þurfum líka að meta það hvort það séu einhver einkenni í íslenska skólakerfinu sem skili sér í öðrum þáttum eins og skapandi þáttum, að geta tekið þátt í lista- og menningarlífi og njóta þess o.s.frv., sem ekki er mælt hér.

Ég ætla að vona að þegar hvítbókin kemur frá hæstv. ráðherra opnum við umræðuna á sama tíma og við fókuserum á hvað það er sem við viljum ná árangri í. Hvar erum við sterk og hvar erum við veik, hvar getum við gert betur og hvernig gerum við það? Þannig að ég lít á þessa umræðu sem (Forseti hringir.) upphaf en ekki endi og ekki dóm heldur sem tækifæri.