143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:08]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra sem og hv. þingmönnum fyrir afar yfirvegaða og góða umræðu um þessa skýrslu. Skýrslan vekur vissulega áhyggjur, sem mér finnst við þurfa að taka föstum tökum, um hvað valdi því námshruni, ef við getum kallað það það, sem hefur orðið hjá íslenskum ungmennum frá síðustu aldamótum. Mér finnst við verða að hugleiða og kortleggja hvað hefur breyst í samfélaginu og bregðast við því.

Staða drengja er alveg sérstakt vandamál sem við þurfum að kljást við. Ég spyr mig hvort þeir lifi frekar í einhverjum ákveðnum huliðsheimi eða leikjatölvuheimi. Ég tel að drengir þurfi meiri hreyfingu og aflraunir en þeir fá með því að sitja kannski daglangt með tölvu í fanginu. Það getur líka haft áhrif á lakari lestrarhæfni meðal drengja.

Ein viðamikil breyting sem hefur orðið og blasir við öllum er að við höfum vaxandi fjölda nemenda af erlendu bergi brotnu, sem er þar af leiðandi tvítyngdur.

Ég hef líka áhyggjur á skorti af karlmönnum sem stunda kennslu vegna þess að ég tel að það hafi meiri áhrif á drengi en stúlkur að það vanti karlmenn sem kennara.

Einnig eru möt og próf í skólum víða á undanhaldi miðað við það sem áður var og ef til vill gerir það ungmennum erfiðara fyrir að svara spurningum í PISA-könnunum þar sem þau eru óvön slíku.

Ég þarf ekki að fjalla hér mikið um Dani, en þeir hafa líka áhyggjur af útkomu sinni. Hv. þm. Karl Garðarsson gerði því ágætlega skil hér áðan. Menning og aftur menning er lykillinn, segja Danir. Það er mikið betra að eiga 500 bækur uppi í hillu en álíka margar milljónir í bankabók ef við erum að tala um velferð barna okkar sem við viljum náttúrlega halda hér fram.

Ég hef lengi haft áhyggjur agaleysi okkar allra. Þess vegna tel ég að mikilvægt að hlúa að ungu kynslóðinni okkar bæði í leik og starfi. Börn þurfa festu og skýra ramma jafnt heima fyrir sem í skólastarfi. Það veitir þeim öryggi og hjálpar þeim að þroska sjálfsaga. En auðvitað reynir það mikið á þolgæði uppalanda sem og kennara að sýna festu í samfélagi sem er á fleygiferð.

Ég mæli reyndar alls ekki með kennsluháttum sem ég hef frétt að tíðkist í Sviss. Þar vissi ég af átta ára gömlu barni sem sýndi ekki nægilegan framgang í námi og var látið sitja eftir, barni í 3. bekk. Ég tel heillavænlegra að mæta einstaklingnum á hans eigin forsendum og styðja hann og hvetja á uppbyggilegan hátt.

Mig langar í þessum ræðustól að vekja athygli á tveimur greinum sem birtust báðar í Fréttablaðinu og vitna ekki síst um mikilvægi góðs samstarfs heimila og skóla eða tengslum þeirra. Önnur greinin er um skólahald og útkomu nemenda í Garðabæ. Þar er tíundað að mjög jákvætt viðhorf sé í skólanum, stöðugleiki sé í starfsmannahópnum og skólinn meti ólíkar þarfir nemenda en alveg sérstaklega er málvitundin þjálfuð og sérstök lestrarstefna hefur verið mótuð, enda kemur Garðabær einstaklega vel út úr þeirri PISA-könnun sem hér er til umræðu. Auðvitað mælir PISA alls ekki alla þætti fjölbreytts skólastarfs.

Annar þáttur sem mig langar að vekja athygli á, eins og hv. þingmaður gerði áðan, er grein sem heitir „Nýr heimur opnast erlendum foreldrum“ og birtist í Fréttablaðinu í morgun um mjög athyglisvert samstarfsverkefni foreldra sem miðar að því að efla þátttöku erlendra foreldra í skólastarfinu. Verkefnið nefnist Söguskjóður og er eitt fimm verkefna sem er tilnefnt til nýsköpunarverðlauna í opinberri þjónustu.

Við höfum fyrirmyndir víðar. Um allt land er verið að vinna að ágætum verkefnum í skólastarfi. Við erum hluti af stórum heimi. Þessi PISA-könnun er alþjóðleg mælistika. Börnin okkar þurfa í framtíðinni að takast á við sömu verkefni og deila þeim með börnum eða ungmennum, hvort sem þau er frá Danmörku eða Sviss. Þess vegna þurfum við að standa jafnfætis þeim.