143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

staða Íslands í alþjóðlegu PISA-könnuninni, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[16:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég hef ekkert sérstaklega miklar áhyggjur af þessari PISA-könnun, og ég skal segja ykkur af hverju. Það sem er verið að mæla er kjarnafærni sem var gríðarlega mikilvæg í iðnbyltingunni. Þá þurfti að taka krakkana úr sveitunum, kenna þeim stærðfræði og lestur þannig að hægt væri að mennta þau inn í iðnmaskínuna. Færni í þessum greinum og náttúrufræði að auki er að fara niður, en ef aðrir hlutir sem eru mikilvægir fyrir kjarnafærni framtíðarinnar eru á sama tíma á leiðinni upp, þá erum við á góðum stað. Þá erum við farin að forgangsraða rétt upp á velmegun nemendanna og upp á velferð landsins og efnahagsins.

Við sjáum það í könnuninni að ánægja í skólum er að fara upp. Hver vísindarannsóknin á fætur annarri bendir til þess að langtímaminni og almenn menntageta sé miklu betri þegar fólk er ánægt í námi, þannig að þarna erum við greinilega að gera eitthvað rétt og við þurfum að halda því áfram.

Svo er annað. Í The Economist þessa vikuna er samantekt um það hvernig tæknin er að breyta kjarnafærni í menntun í dag. Þeir vísa í Oxford-rannsókn frá síðasta ári þar sem bent er á að 47% af störfum í dag liggi undir, þeim muni fækka gríðarlega á ákveðnum sviðum á næstu 20 árum. Sem dæmi segja þeir að 94% bókara, á ensku „accountants“, endurskoðendur — þau störf verða horfin á næstu 20 árum. Leigubílstjórar, nánast farnir. Google er þegar byrjað að keyra tölvustýrða bíla um götur Kaliforníu. Ef við horfum til þessa þá þurfum við að spyrja: Hver er kjarnafærnin í framtíðinni? Hvað eigum við að setja meiri fókus á, setja í meiri forgang en þau atriði sem er verið að mæla í PISA-rannsókninni? Það eru þessi gömlu atriði, þau hafa ákveðið gildi, sem voru kjarnafærni þegar við bjuggum í iðnbyltingarsamfélagi, ekki þekkingarsamfélagi og ekki upplýsingatæknisamfélagi. Hvaða er það í dag? Jú, ég er að tala um þau atriði sem snerta tölvurnar, þær eru núna að verða svo miklu klárari, við erum með svo mikinn aðgang að upplýsingum og á þeim forsendum geta þær tekið yfir störf í svo gríðarlega miklum mæli.

Hvaða kjarnafærni er það sem gerir okkur kleift að vinna með tölvunum og missa ekki störfin? Það er sköpun og stjórnunareiginleikar, að geta stýrt sínu lífi. (Forseti hringir.) Sjálfstæði, frumkvæði og forvitni og sköpunargleði, það er kjarnafærni framtíðarinnar.