143. löggjafarþing — 53. fundur,  21. jan. 2014.

aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni.

268. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar frá allsherjar- og menntamálanefnd sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skipa nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni sem geri áætlun um aðgerðir er miði að því að gera íslensku gjaldgenga í stafrænni upplýsingatækni og stuðla að notkun hennar á þeim vettvangi. Áætlunin feli í sér tímasett yfirlit um aðgerðir og áfanga, kostnaðarmat og fjármögnun. Nefndin leggi áætlun sína fram í síðasta lagi 15. maí 2014.“

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega fagna því að þingsályktunartillagan er lögð fram af allri allsherjar- og menntamálanefnd. Hér er um að ræða gríðarlega stórt mál og brýnt sem varðar stöðu íslenskrar tungu inn í langa framtíð.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir: Hinn 12. mars 2009 samþykkti Alþingi þingsályktun um íslenska málstefnu. Henni til grundvallar lá ritið Íslenska til alls, tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu. Einn kafli þess rits fjallar um íslensku í tölvuheiminum. Þar er sett það meginmarkmið að „íslensk tunga verði nothæf — og notuð — á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings“. Lokaskýrsla nefndar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði til að fylgja eftir stefnunni var gefin út sumarið 2012 og ber heitið Íslenska í tölvuheiminum. Haustið 2012 birtist ritið Íslensk tunga á stafrænni öld sem var afrakstur viðamikils Evrópuverkefnis sem Máltæknisetur tók þátt í. Þá fjallaði ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu árið 2012 um stöðu og horfur íslenskunnar innan tölvu- og upplýsingatækninnar.

Þessi umræða er því orðin þó nokkuð þroskuð en í þeirri ályktun var greint frá því að mikið skorti á að tungumálið byggi við þann tæknilega stuðning sem því er nauðsynlegur til að eiga trygga framtíð á þessu mikilvæga sviði en raunin er sú samkvæmt rannsóknum að af 30 Evróputungumálum stendur íslenska næstverst að vígi hvað þetta snertir.

Auk þess að fjalla um íslenska tungu í stafrænu umhverfi tölvuheimsins eiga fyrrgreind rit það sameiginlegt að öll liggja þau fyrir á rafrænu formi. Má kalla það tímanna tákn og það er sá veruleiki sem við búum við að pappír er víða á undanhaldi og tölvuframsetning er að taka við. Rafræn miðlun eykst í sífellu, bæði rafræn miðlun texta og talmáls, og að sama skapi fjölgar notkunarmöguleikum tungumálsins er það verður tjáskiptatæki milli manna og véla með hjálp til dæmis talgervla og forrita sem breyta talmáli í stafræn boð og stafrænum merkjum í málhljóð. Málnotkun hefur færst inn á nýjan og áður ókunnan vettvang og aðrar væntingar og þarfir beinast að tungumálinu en áður var.

Þeim stórfelldu breytingum sem hin stafræna upplýsinga- og samskiptatækni hefur haft í för með sér á notkun og notagildi tungumála er stundum líkt við þær meginbreytingar sem áttu sér stað við útbreiðslu og þróun prenttækninnar á miðlun ritmáls á sínum tíma og þær hugmyndir sem sú bylting fól í sér. Prenttæknin náði ekki til allra málsvæða og örlög þeirra tungumála sem urðu afskipt þegar prenttæknin var annars vegar blasa við. Þau eru horfin af vettvangi meira og minna eftir að hafa skrimt um hríð sem deyjandi jaðarmál.

Hið fámenna íslenska málsamfélag bar gæfu til að ná tökum á prenttækninni á nýöld og enda þótt einungis um 330.000 manns noti íslensku til daglegra tjáskipta nú á tímum er staða hennar í íslensku samfélagi sterk og ótvíræð — enn sem komið er, er rétt að bæta við, því að nokkrar vísbendingar eru um að íslenskan kunni að verða svo vanbúin til að mæta kröfum hins stafræna heims að hún verði þar sniðgengin og önnur tungumál, betur vædd til stafrænna verka, tekin fram yfir.

Máltækni er til mikils gagns fyrir allan almenning á tímum rafrænna samskipta en nýtist líka ýmsum samfélagshópum með sérstökum hætti. Það á til að mynda við um blinda, lesblinda, heyrnarskerta, heyrnarlausa og hreyfihamlaða. Máltækni gerir fólki kleift að stýra ýmsum tækjum og nota tæknibúnað sér til gagns og ánægju og allir vita hversu notadrjúgir talgervlar eru fyrir blinda og sjónskerta.

Ýmiss konar atvinnustarfsemi nýtur góðs af máltækni. Nefna má að talgreining gæti sparað verulegt fé í heilbrigðisgeiranum, m.a. við ritun sjúkraskýrslna, en sú tækni er notuð í því skyni í Noregi með góðum árangri. Þjónustufyrirtæki geta haft mikinn hag af máltækni, t.d. fyrirtæki sem starfrækja þjónustuver sem veita viðskiptavinum upplýsingar og leiðbeiningar, svo sem bankar, tryggingafélög, símafyrirtæki og opinberar stofnanir af ýmsu tagi.

Það er afar mikilvægt fyrir Íslendinga að geta notað móðurmál sitt á hliðstæðan hátt og á sömu sviðum og aðrar þjóðir nota sitt móðurmál. Sá einstaklingur sem ekki getur notað móðurmál sitt við einhverjar aðstæður í landi sínu er settur skör lægra en aðrir og vísast hér til laga nr. 61/2011, um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, sem samþykkt voru með öllum greiddum atkvæðum í þinginu.

Árabilið 2000–2004 stóð menntamálaráðuneytið fyrir átaki til að efla íslenska máltækni og það þótti skila góðum árangri á ýmsum sviðum. Máltæknisetur, sem er samstarfsvettvangur vísindastofnana, var sett á stofn árið 2005 í framhaldi af máltækniátakinu og hafa ýmis máltækniverkefni komist til framkvæmda á vegum þess. Ekki er hægt að láta nauðsynlegar rannsóknir í þessum málaflokki ráðast einungis af úthlutun samkeppnissjóða þar sem um hagnýtar rannsóknir er að ræða sem eru nauðsynlegar til að framfylgja markmiðum laga nr. 61/2011 og íslenskrar málstefnu frá árinu 2009.

Sökum þess hve íslenska málsamfélagið er fámennt sjá einkafyrirtæki sér yfirleitt ekki hag í að þróa máltæknibúnað á markaðsforsendum. Ekki er líklegt að miklar breytingar verði á því þótt vera kunni að íslenskan eigi eftir að njóta atbeina erlendra hugbúnaðarframleiðenda á máltæknisviði í einhverjum mæli. En auðvitað er það fyrst og fremst Íslendinga að rækja skyldur sínar við tungumál sitt og búa því þau skilyrði að það lifi og nýtist í hinum stafræna samtíma. Þeirri þingsályktunartillögu, sem hér er mælt fyrir, er ætlað að stuðla að því að svo geti orðið.

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega geta þess að kveikjan að þingsályktunartillögunni var umræða í sjónvarpsþættinum Orðbragð um stöðu og þróun íslenskrar tungu. Þar kom Eiríkur Rögnvaldsson prófessor fram og ræddi sérstaklega mögulega stöðu íslenskrar tungu inn í framtíðina ef ekkert yrði að gert. Var sérstaklega horft til tungutækni og stöðu íslenskunnar í stafrænni upplýsingatækni.

Þessi orð Eiríks Rögnvaldssonar, sem voru allnokkuð afgerandi, urðu til þess að ég tók málið hér upp undir liðnum störf þingsins og boðaði þá þingsályktunartillögu sem hér hefur fengist víðtækur pólitískur stuðningur við og er það mikið fagnaðarefni. Ég hef notið stuðnings Eiríks Rögnvaldssonar við skrif á greinargerðinni og framsetningu þingsályktunartillögunnar til að gæta að því að öllu væri til haga haldið eins og nokkurs er kostur. Með tilvísan til þess langar mig að nefna nokkrar röksemdir enn frekar málinu til stuðnings. Í fyrsta lagi þá grunnstoð sem er varðveisla tungunnar. Það er eitthvað sem við erum vön að ræða og höfum rætt á ýmsum vettvangi, Íslendingar, alla tíð, þ.e. staða íslenskrar tungu og varðveislu hennar og mikilvægi þess. Í því umhverfi sem hér er undir erum við í raun og veru að tala um algjörlega nýja stöðu þegar tungumálið býr við þessi tækifæri og þessar ógnir í sömu andrá.

Tæknin er viss ógn við tunguna en gefur okkur um leið ný tækifæri til að þroska hana og þróa og veita henni brautargengi. Íslenskan er ekkert í neinni bráðri útrýmingarhættu, það er enginn að halda því fram. Hins vegar má vel líkja stöðu íslenskrar tungu við hlýnun jarðar. Af hverju má gera það? Það er vegna þess að alvarlegustu áhrif hnattrænnar hlýnunar koma ekki fram á morgun og ekki eftir tíu eða tuttugu ár, vonandi aldrei, vonandi berum við gæfu til þess að snúa af þeirri braut, en ef áhrifin koma fram of seint getur orðið of seint að snúa við. Það sama er með tungumálið. Við hættum ekki að tala íslensku á þessu ári og ekki eftir tíu ár og ekki eftir tuttugu ár. En ef við hins vegar vöknum upp við það einn daginn að tungumálið er ekki nothæft eða ekki notað í upplýsingatækni, íslenskan ekki notuð í menntakerfinu, ekki notuð í stjórnsýslunni, ekki í verslun og viðskiptum, við stjórn hversdagslegra tækja og kannski bara í óformlegu spjalli heima við, þá er of seint að bregðast við. Það er svo. Við vitum það af því að rannsóknir hafa beinst að tungumálum sem hafa farið þá leið.

Það eru ýmis teikn á lofti um að slík þróun sé þegar hafin. Það er tiltölulega auðvelt að bregðast við ef viljinn er fyrir hendi. Við getum kortlagt þessa aðgerðaáætlun og það er markmiðið með því að leggja þingsályktunartillöguna fram.

Önnur röksemd snýr beinlínis að mannréttindum, að þeirri eðlilegu kröfu málnotenda í hverju samfélagi að geta notað þjóðtunguna í samfélagi sínu og líka innan upplýsingatækninnar og hér á það við um íslenska tungu. Við getum sagt að íslenskir málnotendur eigi kröfu á því að geta notað hugbúnað á íslensku, að fá leiðréttingarhugbúnað fyrir íslenskan texta, að geta talað við tölvustýrð tæki á íslensku, að fá þýðingarforrit sem geti þýtt milli íslensku og annarra mála, að eiga aðgang að hugbúnaði sem getur unnið flóknar upplýsingar úr íslenskum texta og gagnasöfnum, leitað í þeim á margvíslegan hátt o.s.frv. Það eru sjálfsögð mannréttindi að geta notað móðurmálið í daglegu lífi, öllum hliðum daglegs lífs, bæði í starfi og leik.

Þar að auki getur, eins og hér var áður vikið að, máltæknin skipt sköpum fyrir ýmsa hópa fatlaðs fólks, blinda og sjónskerta, heyrnarlausa, heyrnarskerta, hreyfihamlaða og fleiri. Við vitum að íslenskir talgervlar hafa gjörbreytt stöðu og tækifærum blindra og sjónskertra að því er varðar möguleikann til eðlilegs lífs og þátttöku, fyrst og fremst til þess, til þátttöku í samfélaginu.

Talgreining getur líka gert hreyfihömluðum kleift að tjá sig á auðveldari hátt og stjórna hjálpartækjum og öðrum búnaði. Með talgreiningu opnast líka möguleikar á rauntímatextun í þágu heyrnarlausra og heyrnarskertra, sem er líka mannréttindamál, þ.e. að eiga möguleika á aðgengi að beinum útsendingum til að mynda, að sjá texta á skjá jafnharðan og talað er, en yfir þeirri tækni höfum við ekki búið svo viðunandi sé hingað til.

Svo er það sem er allra raka vinsælast nú um stundir, en það er hagkvæmni. Með notkun máltækni er hægt að ná niður kostnaði í opinberum rekstri á mörgum sviðum og líka í einkarekstri. Augljós dæmi voru nefnd í greinargerðinni um talgreiningar við gerð sjúkraskýrslna í heilbrigðiskerfinu en það má líka hafa gagn af því annars staðar þar sem þarf að rita mikinn texta eftir tali, svo sem í dómskerfinu, og ég nefni nú ekki hér á Alþingi. Góður hugbúnaður til leiðréttingar á stafsetningu og málfari gagnast alls staðar í kerfinu þar sem gengið er frá rituðum texta, bæði í einkageiranum og opinbera geiranum og getur sparað fé. Notkun talgreiningar og talgervla í hvers kyns þjónustuverum, t.d. hjá bönkum, símfyrirtækjum o.fl. getur sparað stórfé. Þar sem þýða þarf mikinn texta á milli íslensku og annarra mála má hafa mikið gagn af vélrænum þýðingum þótt vitaskuld þurfi alltaf að snyrta og bæta slíkar þýðingar eftir á.

Virðulegi forseti. Ég tel að með yfirferð minni hafi ég gert nokkuð skýra grein fyrir tilurð og rökunum fyrir þessari tilteknu þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni. Ég vænti þess að hún fái greiða leið í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd eftir umfjöllun nefndarinnar og umsagnaferli, en vil í lok máls míns endurtaka ánægju mína með það að allir fulltrúar allsherjar- og menntamálanefndar og þar með fulltrúar allra flokka skuli standa saman að framlagningu tillögunnar.