143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka hér upp málefni Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Þau hafa verið áður til umræðu og umfjöllunar og sá vilji menntamálaráðherra að vilja sameina skólann Háskóla Íslands. Eins og við vitum hafa heimamenn lagst alfarið gegn þeirri sameiningu og reynt að gera hvað þeir geta til að telja hæstv. ráðherra af þeirri skoðun sinni að það verði að framkvæma.

Nú síðast ályktaði fundur starfsmanna Landbúnaðarháskólans, starfs- og endurmenntunardeildar, um miklar áhyggjur sínar af framtíðarhorfum skólans ef af sameiningu yrði. Starfs- og endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri stendur á gömlum merg Bændaskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.

Landbúnaðarháskólinn er eini skólinn í landinu sem býður upp á nám í búfræði og garðyrkju, þessum lykilgreinum, og hefur í raun menntun þeirra atvinnugreina í fanginu. Hann sinnir jafnframt endurmenntun viðkomandi faggreina um allt land. Nám í búfræði og garðyrkju hefur aukist á árunum frá hruni en á sama tíma hefur starfsmönnum fækkað sem veldur auknu álagi á þá sem eftir eru. Eins og ég sagði eru miklar áhyggjur hjá forsvarsmönnum skólans um hvaða áhrif þessi óvissa hefur á framtíðarskipulag skólans í kjölfar hugsanlegrar sameiningar eins og stefnir allt í og líka hver áhrifin verði á stöðu starfsfólks. Það er kominn órói í starfsfólk og kennara á Hvanneyri og margir hugsa sér til hreyfings. Þetta veldur miklum áhyggjum heimamanna. Ásóknin í skólann hefur verið að aukast og það er ekkert sem sýnir fram á fagleg eða fjárhagsleg rök með þessari sameiningu.

Ef stjórnvöld meina eitthvað með því að efla og standa vörð um atvinnu og byggð í landinu og menntun úti á landi er Hvanneyri skólabókardæmi um það að þar eiga menn að standa vörð um og efla þá starfsemi sem fyrir er.