143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þegar stórt er spurt verður ekki alltaf mikið um svör. Ég á vissulega sæti í efnahags- og viðskiptanefnd. Hv. formaður nefndarinnar hefur svarað því hvernig þessi tala varð til, held ég í samtali … (KLM: Margsaga.) Já, já. Hún varð til í samtali milli fjármálaráðuneytis og hv. formanns nefndarinnar. Ég hef ekki mikið leyfi til þess að greina frá því sem gerist á fundi nefndarinnar en frískuldamarkið var að minnsta kosti ekki fundið út frá mikilli vinnu. (KLM: Ekki?) Ég hef ekki séð þau gögn, ég get þó sagt það. Ég hef ekki séð nein gögn sem standa að baki þessu frískuldamarki. Það kom mér á óvart þegar hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar svaraði í upphafi. Hans fyrsta skýring var sú að þetta væri fundið, jú, til þess að hlífa minni fjármálastofnunum sem ekki ættu sök á fjármálahruni og til dæmis ætti MP-banki ekki sök á fjármálahruni.

Þegar menn tala fyrst segja þeir líka oftast satt, held ég. Ég get ekki svarað því hvernig þetta frískuldamark var fundið. Mig grunar að það hafi verið fundið í viðræðum formannsins og fjármálaráðuneytisins. Hugsanlega hefur formaðurinn stungið upp á: Hvernig fer þetta með 50 milljörðum? En vinnugögn hef ég ekki séð.

Ég get ekki svarað þessu nánar. Ég hef lokið máli mínu.