143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[15:38]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að fjalla aðeins um skattsvik og bótasvik og þann skaða sem ríkisstjórnin verður fyrir vegna þeirra mála. — Ég er svo hissa á því hve margir eru í salnum að ég þarf aðeins að jafna mig. Yfirleitt rjúka allir út þegar það er sérstök umræða.

Mig langar líka aðeins að ræða um það viðhorf sem ríkir hér á landi gagnvart því þegar seilst er með óréttmætum hætti í sameiginlegan sjóð okkar, og heyra afstöðu stjórnvalda í því máli. Það er því miður þannig að það eru alltaf einhverjir sem standa í því vísvitandi að svíkja undan skatti og svíkja út bætur og undanfarna mánuði hafa borist fréttir af því að vísbendingar séu um að svört atvinnustarfsemi sé að færast í vöxt.

ASÍ, SA og ríkisskattstjóri fóru í sameiginlegt átak 2011 og aftur 2012 og niðurstöðurnar bentu til þess að svört vinna væri umfangsmikil en 12% af rúmlega 6.000 starfsmönnum sem rætt var við unnu svart. Einnig voru vísbendingar um að ástandið væri einna verst í hótel- og veitingaþjónustu og í byggingar- og mannvirkjageira. Tap ríkisins var áætlað um 14 milljarðar á ári en ég hef reyndar líka séð umfjöllun, eins og frá Samtökum iðnaðarins, þar sem rætt er um mun hærri tölu. Kannski væri áhugavert að fá að vita hvert er raunverulega mat hins opinbera á því tjóni sem skattsvik valda en 14 milljarðar eru í öllu falli mjög mikið.

Það kom líka fram að skortur hafi verið á viðeigandi eftirlitsúrræðum og að auka þyrfti leiðbeiningar, fræðslu og þjónustu. Þegar ég fór að garfa í þessum málum fann ég fyrirspurn frá fyrrverandi hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, frá því á síðasta kjörtímabili, frá því í fyrra held ég. Svarið var frá atvinnu- og nýsköpunarráðherra en í því kom fram að fjármálaráðuneytið væri að setja á fót starfshóp sem ætlað væri að skoða svarta atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu sérstaklega og að sá starfshópur mundi síðan koma með tillögur til úrbóta, hvernig sporna mætti gegn svartri atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu. Ég spyr ráðherra hvernig þeim starfshópi reiði af, hvaða tillögur liggi fyrir og hvað hafi komið út úr þeirri vinnu.

Hvað varðar bótasvik, sem er angi af sama meiði, þá skerum við okkur svolítið úr samanborið við nágrannalöndin, kannski sérstaklega hvað varðar viðhorf almennings til bótasvika og yfirvalda. Mér finnst svolítið eins og við tiplum á tánum í kringum þennan málaflokk. Það er ekki þannig á hinum Norðurlöndunum, þar er fjallað um þetta samfélagsvandamál eins og hvert annað, enda er það þannig að bótasvik og skattsvik grafa undan velferðarkerfinu og eiga ekki að líðast.

Mig langar aðeins að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út í fyrra og hét Eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum. Hún er um margt áhugaverð. Þar kemur til dæmis fram að sérstök eftirlitseining Tryggingastofnunar hafi ekki verið stofnuð fyrr en 2005 en hafi frá árinu 2011 stöðvað óréttmæta greiðslu fyrir um 100 milljónir á ári. Í skýrslu sem danskt ráðgjafarfyrirtæki gerði og kom út í Danmörku var áætlað að rekja mætti 3–5% af heildarbótagreiðslu danska ríkisins til bótasvika. Ef gert er ráð fyrir því að hlutfallið sé sambærilegt hér á landi þá værum við að tala um bótasvik upp á 2–3 milljarða á ári en ekki 100 milljónir. Í þessari skýrslu segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Tryggingastofnun hefur í engu tilfelli beitt heimild að reikna dráttarvexti og bætur sem sviknar hafa verið út. Ekkert mál hefur komið til kasta dómstóla hér á landi þar sem greiðsluþegi hefur verið ákærður og dæmdur fyrir bótasvik. Varnaðaráhrif núverandi fyrirkomulags eru því lítil.“

Mig langar líka aðeins að koma inn á umfjöllun um bótasvik hjá Vinnumálastofnun en það er frétt í Morgunblaðinu frá 23. nóvember 2013. Þar kemur fram að í fyrra, það hefur væntanlega verið 2012, rannsakaði eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar tæplega 700 mál þar sem grunur var um misnotkun og lauk 527 málum með viðurlögum og skilaði eftirlitið 572 millj. kr. sparnaði þar sem tókst að uppræta bótasvik. Í dag er þó aðeins einn starfsmaður í eftirliti eftir því sem ég kemst næst. Ég fékk reyndar ekki alveg skýr svör. Ég mundi halda að hlutverk stjórnvalda væri að tryggja nauðsynlegt fjármagn fyrir þessar stofnanir til að sinna eðlilegu eftirliti. Ég mundi gjarnan vilja heyra afstöðu hæstv. fjármálaráðherra til þessa málaflokks og hvernig hann hyggst sporna gegn því að verið sé að svíkja fé út úr sameiginlegum sjóði landsmanna, og minni þá á spurningar mínar um starfshópinn sem átti að skipa, sem ég vona að hafi verið skipaður, og það sem komið hefur út úr þeirri vinnu.