143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er eitt meginverkefni skattyfirvalda um allan heim að leitast við að stemma stigu við undanskotum frá skatti. Það verkefni hefur sýnt sig að vera viðvarandi og beinast að fjölbreyttri flóru undanskota sem flytjast frá einu viðskiptaforminu til annars og eru jafnan í takt við ríkjandi tæknistig hvers tíma.

Dulin atvinnustarfsemi með vanframtöldum launum og óskráðum atvinnurekstri er hefðbundið form undanskota, á sér meira stað í ákveðnum atvinnugreinum einkum þjónustustarfsemi ýmiss konar.

Á Íslandi hefur umtalsverður tími íslenskra skattyfirvalda á liðnum árum farið í að halda uppi eftirliti með skattskilum og fá fyrirtæki og einstaklinga til að virða skattalög og greiða skatta af þeim tekjum sem aflað er. Ríkisskattstjóri hefur á undanförnum árum haldið uppi virku skatteftirliti og skattskil fjölmargra aðila hafa verið til meðferðar og framtöl endurskoðuð sem leitt hafa til þess að álögð gjöld hafa verið hækkuð. Eftirlitið hefur verið margs konar og er meðal annars í því fólgið að leita uppi þá staði sem svört atvinnustarfsemi hefur mögulega getað þrifist og kannað tekjuskráningu, launagreiðslur og skattskil.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra kemur fram að í heimsóknum á starfsstöðvar aðila er sérstaklega sannreynt hvort þar séu starfsmenn að störfum og hvort staðgreiðslu hafi verið haldið eftir af launagreiðslum þeirra. Frá árinu 2011 til og með árslokum 2013 hafa 3.234 rekstraraðilar og staðgreiðsluskil 9.093 einstaklinga verið könnuð. Á tímabili átti ríkisskattstjóri samstarf við Samtök atvinnulífsins og ASÍ um að sporna við svartri atvinnustarfsemi. Það bar góðan árangur. Á síðasta ári kom út skýrsla um það átak sem rekið var undir yfirskriftinni Leggur þú þitt af mörkum? Í verkefnavali var sérstök áhersla lögð á ferðaþjónustu eins og fyrirspyrjandi og málshefjandi vék að og aðilum tengdum ferðaþjónustu en einnig var sjónum beint að byggingar- og verktakastarfsemi sem og starfsstöðvum sem valdar voru af handahófi.

Nýjar heimildir í staðgreiðslulögum komu til framkvæmda vorið 2013 með 2. gr. laga nr. 42/2013. Þar var ríkisskattstjóra veitt heimild til að láta stöðva atvinnurekstur aðila ef ekki yrði bætt úr vanhöldum á skilum í staðgreiðslu eftir undangengnar aðvaranir. Úrræði þetta og tilvist þess hefur reynst árangursríkt og mun meiri árangur náðist á árinu 2013 en fyrr í að fá aðila til að bæta úr annmörkum, leiðrétta skattskil og taka starfsmenn af svörtum launum. Aðeins einu sinni hefur þurft að beita lokunarúrræðinu.

Vegna þeirra aðstæðna sem þá sköpuðust urðu varnaðaráhrif ákvæðisins fyrir bragðið mun áhrifameiri. Almennt skatteftirlit hefur á síðustu árum verið mjög hert. Skiptir þar miklu máli sameining skattstjóra og RSK en þannig tókst að mynda sterka samstillta 31 manns einingu hjá ríkisskattstjóra sem eingöngu hefur sinnt skatteftirliti. Áður voru starfskraftar mjög dreifðir og aðgerðir gegn svartri atvinnustarfsemi voru ekki samræmdar milli eldri skattumdæma og því ekki eins markvissar. Mismunandi mælikvarðar geta verið á árangri gegn undanskotum og vanhöldum á réttum skattskilum. Einn er fjöldi heimsókna, annar er fjárhæð gjaldbreytinga í kjölfar almennra eftirlitsaðgerða ríkisskattstjóra en til að sporna við svartri atvinnustarfsemi eru heimsóknir og kannanir á starfsstöðvum virkasta úrræðið. Gjaldbreytingar sýna á hinn bóginn hvernig skattskilum hefur verið ábótavant með rangri túlkun skattalaga eða misvísandi skattskilum. Gjaldbreytingar vegna síðustu ára hafa alls verið tæpir 30 milljarðar kr., þ.e. á árunum 2010–2013. En það verður hins vegar að hafa í huga að þessar skattbreytingar geta sætt málskotum til yfirskattanefndar og dómstóla, geta þar tekið breytingum aftur til lækkunar og einnig þarf að hafa í huga að tilteknir skattaðilar sem sæta gjaldbreytingu reynast ekki ávallt hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa skil af skattgreiðslum. Það væri mjög athyglisvert að fá greiningu á því hvað af þessum gjaldbreytingum skilar sér á endanum til ríkisins í innheimtum sköttum en það hefur ekki enn verið gert og kemur til athugunar að láta gera það.

Ég vil bregðast sérstaklega við fyrirspurnum sem beinast að starfshópi. Fyrir nokkru var settur á fót starfshópur skipaður sjö sérfræðingum sem vinnur að því að kanna umfang undanskota eftir atvinnugreinum og meta möguleg heildarundanskot sem sérstaklega var spurt um. Þessi hópur mun skila af sér á vormánuðum og þá ætti að vera unnt, með áreiðanlegri hætti en nú er, að meta hvort grípa þurfi til nýrra og víðtækari úrræða en gert hefur verið.

Ég vil jafnframt taka undir með áherslum málshefjanda hér hvað varðar bótasvikin en félagsmálaráðherra hefur verið að beita sér sérstaklega fyrir því að hjá Tryggingastofnun verði bótasvikum gefinn aukinn gaumur og fjármunir settir í þann málaflokk.