143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[15:54]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur fyrir að vekja máls á þessu þarfa umræðuefni. Fyrir tæpu ári kom út skýrsla á vegum Eurofound þar sem fjallað er um svarta atvinnustarfsemi á Íslandi. Þar eru tölurnar svolítið hærri en nefndar hafa verið, í henni er talað um allt að 15% af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta eru fjármunir sem renna í svarta hagkerfið en samfélagið nýtur ekki góðs af þeim.

Í fjölmiðlum undanfarin missiri hefur oft verið talað um ferðaþjónustuna en þar er talið að svört atvinnustarfsemi geti numið 12–15 milljörðum kr. á ári. Þar skiptist neðanjarðarstarfsemin í þrennt, við erum að tala um hefðbundinn veitingarekstur aðila sem eru með starfsemi án tilskilinna leyfa, t.d. leigu á húsnæði, og loks þjónustu sem greitt er fyrir erlendis þannig að peningarnir skila sér aldrei heim.

Samkvæmt skýrslu ríkisskattstjóra, ASÍ og Samtaka atvinnulífsins frá 2012 er svör atvinnustarfsemi einna mest í farþegaflutningum, 27%, í byggingariðnaði var talan 22%, 13% þegar kom að starfsemi gistiheimila og 4,6% hjá veitingastöðum.

Það liggur fyrir að skatteftirlit eykur tekjur ríkissjóðs. Þrátt fyrir takmarkaðan mannafla voru um 2 þús. mál að meðaltali til skoðunar hjá skattstjóra og ríkisskattstjóra á árunum 2008–2012. Á þessu fjögurra ára tímabili sem hér er til umræðu leiddu þessar rannsóknir til hækkunar skatta og gjalda um tæpa 23 milljarða kr.

Eitt hættumerkið tengist hinum sameiginlega vinnumarkaði á EES-svæðinu. Þegar atvinnulífið tekur við sér hérlendis leita útlendingar hingað í atvinnuleit í auknum mæli. Þeir þekkja oft ekki rétt sinn og því er oft auðvelt fyrir atvinnurekendur að bjóða þessu fólki upp á svartar launagreiðslur. Við verðum að tryggja að þetta fólk njóti þeirra kjara sem því ber á íslenskum vinnumarkaði.

Það er löngu orðið tímabært að taka þessi mál föstum tökum og herða eftirlit, bæði með svartri atvinnustarfsemi og bótasvikum. Það hefur oft verið óskiljanleg tregða og vandræðagangur þegar kemur að eftirliti á Íslandi.