143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

svört atvinnustarfsemi.

[16:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú að flytja allt aðra ræðu, en ég á bara ekki orð yfir ræðuna sem haldin var hér á undan. Að hv. þingmaður á Alþingi standi hér með einhverjar réttlætingar fyrir því að stungið sé undan skatti í samfélagi okkar finnst mér vera fyrir neðan allar hellur. (Gripið fram í.) Að það sé bara skiljanlegt út frá skattstefnu sem rekin hefur verið hér. Hvaða skattstefna var rekin hér á síðasta kjörtímabili? Það var sú skattstefna að lækka álögur á þá sem lægstar hafa tekjurnar og líka upp í millitekjurnar og hækka álögur á þá sem hafa hæstar tekjur. Fyrirtæki hér á landi eru svo langt í frá skattpínd ef skoðaður er samanburður við önnur ríki. Hv. þingmaður verður að stappa stálinu í þá sem svíkja undan skatti í samfélagi okkar með einhverjum allt öðrum hætti en þessum undarlegu rökum sem flutt voru fyrir því í þessum ræðustól áðan.

Virðulegi forseti. Förum þá í ræðuna mína. Ég fagna því sem hæstv. ráðherra lýsti hér áðan, að aðferðafræðin sem tekin hefur verið upp hér á landi skuli virka. Þar er um að ræða að aukið eftirlit og lokunarúrræðin í kjölfar áminninga virðast virka, en menn renndu blint í sjóinn varðandi það hvort það gæti gengið upp. Þeir vissu að því fylgir mikil vinna við að fylgja því eftir öllu saman. En það er gott að þetta skuli virka og það er líka gott að það sé bara eitt fyrirtæki sem hafi gengið það langt að því hafi verið lokað. Það þýðir að þetta er úrræði sem virkar.

Mér finnst líka gott að heyra hjá hæstv. ráðherra varðandi atvinnuvegagreiningu og ég held að hann eigi marga stuðningsmenn í því máli í þingsal, mér heyrist það á máli flestra. Atvinnuvegagreiningin getur orðið til þess að ekki verði alltaf einhverjar sögusagnir um einstaka atvinnugreinar sem fái að lifa góðu lífi, en það svertir þessar greinar. Ef farið verður í atvinnuvegagreiningu er hægt að koma með úrræði sem eru ýmist lagfæring á leyfisveitingaumhverfi, eins og nefnt var áðan, eða að menn átti sig á því hvaða úrræði virka best fyrir ólíkar atvinnugreinar. Það er svo sannarlega (Forseti hringir.) mismunun á milli atvinnugreina og það þarf að taka (Forseti hringir.) á þessu máli á breiðum grundvelli (Forseti hringir.) með þeim hætti.