143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alltaf ástæða til þess að ræða um verðlagningu í landinu, ekki síst á dagvörunni. Matvælin eru mikilvægur liður í innkaupum heimilanna þó að það sé sérstakt fagnaðarefni að matarkarfan hefur verið að lækka mjög mikið síðustu áratugina. Hún var kannski upp undir helmingur af neyslu heimilanna en hefur farið niður í að vera nær 15%.

Hér er komið inn á fjölmörg atriði eins og frelsi í viðskiptum og stöðuna á markaðnum og mikilvægt að við gætum að öllum sjónarmiðum sem þarf að halda á lofti í svona umfangsmiklu máli. Ég ætla að byrja á því að segja að það er mín skoðun að í umræðunni almennt um samkeppnismál á Íslandi skorti á að því sé sýndur fullur skilningur að fákeppni er ekki andstaðan við samkeppni. Það er þannig með markaðinn á Íslandi að á ýmsum sviðum verður fákeppni vegna smæðar landsins og við sjáum reyndar jafnvel í miklu stærri samfélögum eins og t.d. í Noregi, jafnvel í Bretlandi, að fáir stórir aðilar geta í krafti stærðarinnar boðið upp á lægra verð.

Á undanförnum árum höfum við séð mjög afgerandi hreyfingu hjá neytendum í landinu og mjög ákveðna vísbendingu um það hvað það er sem þeir sækjast helst eftir, og það virðist vera lágt verð, vegna þess að lágvöruverðsverslanir hafa mjög aukið hlutdeild sína frá aldamótunum. Samkvæmt mælingum á árabilinu 1999–2010 fór hlutdeild lágvöruverðsverslana úr 20% upp í 63%, þannig að hartnær 2/3 markaðarins voru hjá lágvöruverðsverslunum.

Það er rétt sem málshefjandi bendir á að stærri verslanir hafa meiri kaupmátt og geta þannig í krafti stærðar sinnar náð hagkvæmari innkaupum. Um þetta hefur Samkeppniseftirlitið fjallað sérstaklega í skýrslum. Það er ekki að sjá á umfjöllun Samkeppniseftirlitsins að neitt óeðlilegt sé þar á ferðinni. Samtök atvinnurekenda hafa bent á að það væri kannski frekar óeðlilegt ef stærstu aðilar og þeir allra smæstu keyptu inn frá birgjum á sömu kjörum. Það benti til þess að eitthvað óeðlilegt væri á ferðinni. Ég held að við getum ekki dregið þá ályktun að það sé fyrir fram óeðlilegt að smærri aðilar, jafnvel verslanir reknar af einstaklingum þar sem er einungis ein lítil verslun opin, njóti ekki sömu kjara hjá birgjum og stóru fyrirtækin sem eru með mun meiri umsvif og veltu.

Á endanum verður þetta endalaust viðfangsefni að finna jafnvægið á milli þess að leyfa aðilum að stækka, leyfa aðilum að byggja upp stærðarhagkvæmni til þess að geta boðið betri kjör, að leyfa því að gerast annars vegar og hins vegar að gæta að því að menn misnoti ekki þá stöðu sína til þess að eyðileggja samkeppni á þeim markaði sem á í hlut hverju sinni. Það hefur verið viðfangsefni samkeppnislaganna að finna þetta jafnvægi. Í mínum huga var of langt gengið þegar síðasta breyting var gerð á samkeppnislögum um þessi efni þar sem opnað var fyrir það að fyrirtækjum yrði skipt upp, þau brotin upp í smærri einingar, án þess að fyrir lægi brot á samkeppnislögum. Það var að mínu áliti ekki komið fram nægilegt tilefni til þess að grípa til slíkra ráðstafana.

Hv. málshefjandi vill undanskilja suma hluti frá umræðunni eins og landbúnaðarafurðir, en ég verð samt að segja að það er erfitt að ræða almennt um matvöruverð í landinu án þess að taka matvöruna í heild sinni með í reikninginn. Matvöruverð á landbúnaðarafurðum er hlutfallslega hagstætt á Íslandi þegar horft er til Evrópska efnahagssvæðisins og matvöruverð almennt nokkuð hagstætt samkvæmt mælingum Hagstofunnar, en það er hins vegar svo að við erum enn með ýmsa tolla og nokkur vörugjöld á einstaka afurðum, sérstaklega sykruðum afurðum, í matvörunni sem hafa áhrif á matvöruverð í landinu. Við sáum það t.d. þegar Melabúðin tók það upp hjá sér í fyrra að bjóða upp á verð sem miðuðu við að tollar og vörugjöld hefðu verið felld niður, þá fór pokinn af frönskum kartöflum úr 849 kr. niður í 549. Þar var bein mæling á áhrifum vörugjalda og tolla.

Það er erfitt (Forseti hringir.) að komast yfir öll þau atriði sem hér eru nefnd(Forseti hringir.) til sögunnar, en ég vil fagna (Forseti hringir.) áherslum hv. þingmanns á allar aðgerðir sem geta lækkað vöruverð í landinu og þar með kjör fólksins.