143. löggjafarþing — 54. fundur,  22. jan. 2014.

hátt vöruverð og málefni smásöluverslunar.

[16:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Íslensk verslun hefur tekið miklum breytingum á liðnum árum. Sumt hefur komið neytendum til góða, en annað hefur orðið til þess að verðlag hefur hækkað og tilefni verðlagsbreytinga er oft óljóst og yfirleitt á einn veg til hækkunar. Enn fremur hefur verð á innfluttum varningi ekki fylgt styrkingu krónunnar eins og komið hefur hér fram, en neytendavernd og neytendafræðsla hefur styrkst hin síðari ár og fólk er meðvitaðra um gæði og verð á vöru og gerir samanburð sem vissulega veitir aðhald og ýtir undir samkeppni á markaði.

Það öfluga verðlagseftirlit sem ASÍ hefur haft með hendi undanfarin ár skiptir líka gríðarlega miklu máli og hefur veitt smásöluverslun í landinu eðlilegt aðhald og leiðbeint neytendum við val á vöru og þjónustu.

Mikil yfirbygging í húsnæði verslunar og þjónustu hefur líka haft mikil áhrif á vöruverð almennt til hækkunar og þá er ég að tala um Stór-Reykjavíkursvæðið og langur opnunartími verslana gerir að verkum að einhvers staðar verður að taka þann aukna kostnað sem honum fylgir óhjákvæmilega. Þá liggur beint við að velta því út í verðlagið sem raunin er oftar en ekki því miður.

Matvöruverð og vöruverð úti á landsbyggðinni er svo kapítuli út af fyrir sig. Vöruverð í þeim landshlutum sem fjærst eru vöruinnflutningi og framleiðslumarkaði hér innan lands tekur á sig viðbótarhækkanir sem ekki er alltaf innstæða fyrir og einnig er velt út í verðlagið miklum flutningskostnaði innan lands. Samkeppni víða um land er lítil eða engin, svo að staða neytenda innan lands er gjörólík. Á því þarf að taka í jöfnun flutningskostnaðar á vörudreifingu innan lands.

Eitt fyrirtæki í matvöruverslun hefur boðið sama vöruverð út um allt land og ber að hrósa því. Það er mikil kjarabót. Ég verð að segja að það er ígildi margra kjarasamninga.